Þarf að greiða með peningum

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir að Jóhannes Jónsson verði að greiða eignir, sem hann kaupir af bankanum út úr Högum, með peningum.  „Ef hann greiðir ekki með peningum þá fær hann ekki hlutabréfin. Þetta eru engin lán frá bankanum. Hann kemur með peningana einhverstaðar annars staðar frá, ég veit ekki hvaðan,“ segir Höskuldur við Morgunblaðið.

Um er að ræða eignarhlut Haga í færeyska félaginu SMS ásamt sérvöruverslununum Top Shop, Zara og All Saints. Kaupverðið er 1237,5 milljónir króna. Samkvæmt álagningarskrá námu framtaldar eignir Jóhannesar umfram skuldir á síðasta ári tæpum 386 milljónum króna.

Höskuldur segir, að eignirnar séu ekki seldar í opnu söluferli vegna þess að verslanirnar tengist Jóhannesi mjög persónulega. „Þetta eru nöfn sem standa á bak við þetta sem þið þekkið eins og Philip Green og Kevin Stanford. Við mátum það þannig að þessi umboð væru í sjálfu sér ekki föst í hendi þegar til kastanna kæmi. Við tókum þetta því út úr samstæðunni. Þetta eru u.þ.b. 2% af veltunni og í sjálfu sér ekki stórkostlegt,“ segir Höskuldur.

Bankinn gerði 12 mánaða starfslokasamning við Jóhannes auk þess sem hann fær 90 milljóna króna eingreiðslu við fullnaðaruppgjör. Höskuldur kveður upphæðina vera samkomulag milli bankans og Jóhannesar. „Jóhannes gefur eftir ákveðin réttindi, samningsbundin og önnur. Þetta var í sjálfu sér bara niðurstaða í því. Þetta er bara samningsatriði.“

Jóhannes kaupir jafnframt bíl, íbúð og sumarhús sem hann hefur haft til umráða á 41 milljón króna. Höskuldur segir þá upphæð vera eðlilegt matsverð á eignunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK