Segja kyrrstöðusamning ekki fela í sér sérkjör

Arion banki hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að kyrrstöðusamningur sem bankinn gerði við eignarhaldsfélagið Gaum sé einn fjölda kyrrstöðusamninga gerðir hafa verið hér á landi síðustu misserin þar sem ýmist einn kröfuhafi eða fleiri saman gefa skuldurum færi á að endurskipuleggja fjármál sín.

„Kyrrstöðusamningur ver hagsmuni bankans Að gefnu tilefni vill Arion banki árétta eftirfarandi um kyrrstöðusamning (e. stand still agreement) við eignarhaldsfélagið Gaum:

Bankinn leitar allra leiða til að tryggja hagsmuni sína sem kröfuhafa í þessu máli sem öðrum. Kyrrstöðusamningar eru í ákveðnum tilvikum leið til verja slíka hagsmuni og eru í eðli sínu tímabundin frysting lána meðan unnið er að greiningu og úrlausn vandans.

Arion banki hefur tímabundið fryst lán hjá hundruðum viðskiptavina sinna, einstaklingum sem fyrirtækjum, á undanförnum mánuðum. Í öllum þessum tilvikum væntir bankinn þess að eitthvað það gerist áður en fresturinn er úti sem verði til þess að bankinn sjái hagsmunum sínum betur borgið sem kröfuhafi

Kyrrstöðusamningar eru gerðir til nokkurra daga, vikna eða til lengri tíma. Fjöldi kyrrstöðusamninga hefur verið gerður hér á landi síðustu misserin þar sem ýmist einn kröfuhafi eða fleiri saman gefa skuldurum færi á að endurskipuleggja fjármál sín. Öll umræða um að kyrrstöðusamningur feli í sér sérkjör fyrir útvalda er því villandi

Aðgerðir í einstökum málum eru háðar mati í hverju tilfelli með hagsmuni bankans að leiðarljósi. Þó að einn kröfuhafi geri kyrrstöðusamning við skuldara, hefur það ekki áhrif á fullnustuaðgerðir annarra kröfuhafa. Í ljósi ummæla Umboðsmanns skuldara mun bankinn óska eftir fundi með embættinu," segir í tilkynningu frá Arion banka.

Gaumur var aðaleigandi Baugs en Baugur hefur verið tekinn til gjaldþotaskipta. Gjaldþrot Baugs er stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar á eftir viðskiptabönkunum þremur en kröfur í Baug eru yfir þrjú hundruð milljarðar króna.

1998 sem var dótturfélag Baugs skuldar Arion banka um 50 milljarða króna. Gaumur er ábyrgur fyrir stórum hluta þess. Skuldin varð til þegar Hagar voru keyptir út úr Baugi sumarið 2008, að því er fram kom í frétt RÚV í síðustu viku.

Umboðsmaður skuldara sagði i fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi svokallaða kyrrstöðusamninga ekki þekkjast sem úrræði í almennum bankaviðskiptum. Engu að síður hafa Björgólfur Thor og eigendur fjárfestingarfélagsins Gaums fengið slíka samninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK