Arion banki segist vilja endurreisa Sigurplast

Sigurplast
Sigurplast


 Arion banki hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að að bankinn hyggst óska eftir því við skiptastjóra Sigurplasts að áframhaldandi rekstur félagsins verði tryggður. Stjórn Sigurplasts óskaði eftir því fyrr í vikunni við héraðsdóm að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Segir í tilkynningu frá Sigurplasti, að viðskiptabanki Sigurplasts hafi skorað á félagið að lýsa því yfir að það geti greitt bankanum 1,1 milljarð króna vegna láns sem upphaflega var 334 milljónir króna. Slíkt sé útilokað.

Tilkynning Arion banka í dag:

„Í kjölfar yfirlýsinga forsvarsmanna Sigurplasts ehf., um að þeir hafi óskað eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu, vill Arion banki koma eftirfarandi á framfæri:
 
Að sögn forsvarsmanna Sigurplasts ehf. hafa þeir óskað eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu. Arion banki er einn stærsti kröfuhafi Sigurplasts og er jafnframt eigandi þriðjungs hlutafjár félagsins. Forsvarsmönnum Sigurplasts hefur lengi verið ljóst að bankinn vill endurskipuleggja fjárhag félagsins, skjóta traustari stoðum undir rekstur þess og bjarga þar með þeim störfum sem í húfi eru. 
 
Sigurplast hefur ekki verið úrskurðað gjaldþrota og skiptastjóri hefur ekki verið skipaður. Gert er ráð fyrir því að héraðsdómur taki beiðni forsvarsmanna félagsins fyrir á allra næstu dögum og skipi félaginu skiptastjóra.
 
Til að taka af vafa starfsmanna, viðskiptamanna og annarra hagsmunaaðila vill Arion banki koma því á framfæri að hann hann hyggst óska eftir því við skiptastjóra að áframhaldandi rekstur félagsins verði tryggður. Þannig hefur bankinn fullan hug á að taka þátt í endurreisn fyrirtækisins,  tryggja  störf þeirra starfsmanna sem að framleiðslunni koma og áframhaldandi viðskipti viðskiptavina félagsins.
 
Ef skiptastjóri fellst á aðkomu Arion banka um endurreisn félagsins, hyggst Arion banki selja félagið í opnu söluferli síðar. Bankinn mun kynna nýja tilhögun á rekstri Sigurplasts nánar ef samkomulag næst við skiptastjóra félagsins."

Frétt um Sigurplast fyrr í vikunni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir