Tap hjá 365 miðlum í fyrra

Tap á rekstri 365 miðla nam 344 milljónum króna á síðasta ári, að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Félagið segir hins vegar að á þessu ári hafi orðið viðsnúningur í rekstrinum og fyrstu níu mánuði ársins hafi verið 86 milljóna króna hagnaður.

Fram kemur í tilkynningu að 365 miðlar hafi skilað ársreikningi fyrir árið 2009 til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra í dag. Samkvæmt reikningnum nam heildarvelta félagsins 7966 milljónum króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnskostnað nam 808 milljónum króna.  Afskriftir og fjármagnsliðir námu 1152 milljónum á árinu og tap ársins var því 344 milljónir.

Samkvæmt efnahagsreikningi nam eigið fé félagsins 773 milljónum króna í árslok 2009 og eiginfjárhlutfall 9,3%.  Þá nam handbært fé félagsins 235 milljónir.

Þá segir í tilkynningunni, að fjárhagsstaða félagsins hafi styrkst verulega á árinu 2010.  Í lok mars hafi hlutafé félagsins verið aukið um 1 milljarð króna aukningunni  að miklu leyti ráðstafað til niðurgreiðslu skulda í byrjun apríl. 
 
Samkvæmt rekstrarreikningi fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2010 þá nam heildarvelta félagsins um 6 milljörðum króna og hagnaður fyrir  afskriftir og fjármagnskostnað nam 594 milljónum, sem sé í samræmi við áætlanir félagsins.   Afskriftir og fjármagnsliðir námu 508 milljónum króna og hagnaður tímabilsins var því 86 milljónir.  Á sama tíma árið áður nam EBITDA hagnaður 448 milljónum króna og tap félagsins var 513 milljónir.

Samkvæmt efnahagsreikningi nemur eigið fé félagsins nú 1846 milljónum og er eiginfjárhlutfall 20,3%.  Veltufjárhlutfall er 1,02 og handbært fé félagsins nam 735 milljónum í lok september.
 
Reykjavík 11. október 2010
Ari Edwald
 
 
 
 
 
 
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir