Hagar til sölu

Arion banki er að hefja formlegt söluferli á eignarhlut sínum í verslunarfyrirtækinu Högum, sem nemur um 99,5% af útistandandi hlutum í félaginu. Fyrsta skref bankans verður að bjóða til sölu kjölfestuhlut í því skyni að fá til liðs við félagið fjárfesti sem muni veita félaginu forystu til lengri tíma.

Í tilkynningu frá bankanum segir, að eftir sölu á kjölfestuhlut í Högum verði fagfjárfestum og almennum fjárfestum gefið færi á að kaupa hluti í félaginu, og í kjölfarið sé áformað að skrá hlutabréf félagsins í íslensku kauphöllinni.

Haft er eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, í tilkynningu, að það sé ákveðinn liður í endurreisn íslensks viðskiptalífs að koma eignarhaldi Haga frá bankanum og í eðlilegri farveg, enda sé um að ræða stærsta verslunarfyrirtæki landsins sem gegni mikilvægu hlutverki í smásöluverslun um allt land. Hagar séu öflugt félag sem hafi sýnt stöðugan rekstur í erfiðu efnahagsumhverfi og efnahagur þess er traustur. „Við teljum því að Hagar séu áhugaverður kostur fyrir fjárfesta,“ segir Höskuldur.

Arion banki áformar að selja kjölfestufjárfesti 15-29% hlut í Högum. Bankinn segist þó munu taka til skoðunar öll tilboð sem bankanum berast í eignarhlut sinn í félaginu. Sé því fjárfestum, sem áhuga hafa á að kaupa allan hlutinn, gefinn kostur á því að leggja inn slíkt tilboð nú á fyrsta stigi söluferlisins.

Nánara fyrirkomulag þessa fyrsta hluta söluferlisins verður auglýst í lok vikunnar. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur umsjón með söluferlinu og skráningu Haga, sem er fyrirhuguð á næsta ári, en í þessu ferli nýtur bankinn einnig ráðgjafar Markaðsviðskipta Svenska Handelsbanken.

65 milljarða króna velta

Arion banki eignaðist hlut sinn í Högum við yfirtöku á eignarhaldsfélaginu 1998 í október 2009. Verslanakeðjan 10-11 verið skilin frá rekstri Hagasamstæðunnar og er sala hennar í undirbúningi. Einnig hefur verið samið um sölu á eignarhlut Haga í SMS sem rekur matvöruverslanir í Færeyjum. Er kaupandinn Jóhannes Jónsson, fyrrum stjórnarformaður Haga.

Velta Haga nam um 65 milljörðum króna á síðasta fjárhagsári félagsins og nam rekstrarhagnaður um fjórum milljörðum króna, en þá er búið að taka tillit til breytinga á samstæðunni.

Undir samstæðu Haga falla verslanakeðjurnar Bónus og Hagkaup, Útilíf, verslanir á Íslandi undir vörumerkjunum All Saints, Coast, Day, Debenhams, Dorothy Perkins, Evans, Karen Millen, Oasis, Top Shop, Warehouse og Zara, ásamt innkaupafyrirtækjunum Aðföngum, Hýsingu, Banönum og Ferskum kjötvörum.

20 milljarða virði?

Líkum var leitt að því í Morgunblaðinu fyrir ári, að væru Hagar bornir saman við erlend fyrirtæki í sambærilegum rekstri og kennitölur bornar saman gæti virði fyrirtækisins legið í kringum 20 milljarða króna.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir