Einkaneysla að aukast

ÞÖK

Einkaneysla virðist vera að aukast ef marka má nýjar tölur um kortaveltu, sem Seðlabankinn hefur birt um greiðslumiðlun. Nam kreditkortavelta í október 24,9 milljörðum króna og var það 7,5% meiri velta í krónum talið en í sama mánuði í fyrra.

Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka, að ef  miðað sé við þróun vísitölu neysluverðs og gengisvísitölunnar hafi kreditkortavelta aukist um 6,6% milli ára. Megi þakka það fyrst og fremst nærri 40% raunaukningu í erlendri kortaveltu á milli ára, en innlend kreditkortavelta hafi aðeins aukist um ríflega 1% á sama tíma.

Debetkortavelta í innlendum verslunum nam 17,9 milljörðum króna í október og dróst saman að raungildi um tæplega 3% frá sama mánuði í fyrra.

Íslandsbanki segir, að samanlagt gefi raunbreyting kreditkortaveltu og debetkortaveltu í innlendum verslunum góða mynd af þróun einkaneyslu hérlendis. Á þann kvarða hafi kortavelta aukist um 2,4% að raungildi í október frá sama mánuði í fyrra. Sé það þriðji mánuðurinn í röð þar sem kortavelta aukist að raungildi milli ára, mælt með þessum hætti.

„Þetta er vísbending um að heimilin séu heldur að auka við sig neyslu eftir að hafa hert beltin verulega undanfarin tvö ár. Ekki er þó loku fyrir það skotið að aftur slái í bakseglin með þessa þróun þegar sér fyrir endann á ýmsum tímabundnum úrræðum á borð við útgreiðslur séreignarsparnaðar, greiðslufrí bifreiðalána og frystingar íbúðalána. Hins vegar er kaupmáttur launa tekinn að mjakast upp á við eftir mikinn samdrátt undanfarið og gæti það hjálpað til að styðja við einkaneysluna á næstu mánuðum og misserum," segir í Morgunkorni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK