Engar óeðlilegar ákvarðanir varðandi Sjóvá

Seðlabankinn segir, að í söluferli Sjóvár og tengdum atvikum hafa engar meiriháttar ákvarðanir verið teknar sem telja megi á einhvern hátt óeðlilegar enda séu þær vel grundaðar og leitað hafi verið álita utanaðkomandi lögfræðinga og sérfræðinga eftir því sem þótt hafi þurfa.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Seðlabankanum vegna umræðu um þagnarskyldu, upplýsingaskyldu og söluferli Sjóvár. Jafnframt kemur fram, að ríkisendurskoðandi hafi fengið öll gögn málsins og tjáð Seðlabankanum að hann geri engar athugasemdir við málsmeðferðina.

Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram, að Sjóvá hafi verið í opnu söluferli síðan snemma á síðasta ári. Teknar voru upp viðræður við þann fjárfestahóp sem hæst bauð og um haustið lá fyrir óundirritaður kaupsamningur.

„ Þá komu upp mál sem 35. grein Seðlabankalaga, sem og önnur ákvæði laga um þagnarskyldu, gera Seðlabankanum óheimilt að skýra frá opinberlega hver voru. Eftir skoðun fjölda lögfræðinga lá fyrir að það myndi teljast alvarlegt brot í starfi af hálfu seðlabankastjóra, og annarra sem fjölluðu um málið innan Seðlabankans, ef gengið hefði verið frá umræddri sölu án þess að fá fyrst niðurstöðu varðandi það mál sem upp var komið. Fulltrúum fjárfestahópsins var skýrt frá þessu en jafnframt að Seðlabankinn væri fyrir sitt leyti tilbúinn til að bíða þar til málin skýrðust frekar. Þessu vildi hópurinn ekki una og sagði sig frá ferlinu. Það var því ekki Seðlabankinn sem sleit samningum við hópinn. Í þessu sambandi er einnig rétt að minna á að FME var um þessar mundir í gangi með athugun á hæfi væntanlegra eigenda og gaf af því tilefni út yfirlýsingu í kjölfar þess að fjárfestahópurinn dró tilboð sitt til baka," segir í yfirlýsingunni. 

Yfirlýsing Seðlabankans

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir