Lúðvík Elíasson, forstöðumaður greiningardeildar MP banka, sagði á fundi á vegum bankans í morgun, að töluverðar líkur væru á því að gengi krónunnar muni lækka, verðbólga aukist og vextir hækki þegar líður á árið.
Greiningardeild bankans segir í nýrri greinargerð, að verðbólga gæti nálgast 4% undir lok ársins. Þá gætu stýrivextir Seðlabankans farið að hækka undir lok ársins og muni síðan hækka jafnt og þétt þar til þeir verða rúm 6% á árinu 2014.
Samkvæmt upplýsingum frá MP banka leitaði Lúðvík svara við því á fundinum í morgun hvort stöðugleiki væri í augsýn og hvort tímabært væri að afnema gjaldeyrishöft. Hann benti á að óskhyggja um að stöðugleika væri náð kynni að halda aftur af afnámi gjaldeyrishafta vegna ótta við að stöðugleikanum væri fórnað.
Hann taldi hins vegar að enn væri í gangi aðlögun efnahagslífsins og stöðugleika yrði ekki náð á ný fyrr en gjaldeyrishöftum hefði verið aflétt.