Dómsmál minni efnahagsleg áhætta

Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður.
Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður.

Yrði íslenska ríkið dæmt til að greiða skaðabætur í dómsmáli vegna Icesave-reikninga Landsbankans, yrðu þær bætur alltaf í krónum. Efnahagsleg áhætta dómsmáls er því ekki hin sama og að samþykkja fyrirliggjandi Icesave-samning. Þetta segir  Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður.

Reimar gagnrýnir skrif átta hæstaréttarlögmanna sem birtust í Fréttablaðinu á dögunum undir yfirskriftinni „Dýrkeyptur glannaskapur”. Vöruðu lögmennirnir við því, í þeirri grein, að fella Icesave-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í aðsendri grein eftir Reimar í Morgunblaðinu í dag segir meðal annars: „Lögmennirnir telja að dómstólaleiðin sé háð öllum sömu áhættuþáttum og felast í Icesavesamningnum, þ.e. áhættu af heimtum úr þrotabúi Landsbankans, af almennri efnahagsþróun og af gengisþróun. Þetta álit lögmannanna fær ekki staðist.”

Reimar segir að yrði niðurstaðan í dómsmál sýkna, skiptu þessir áhættuþættir engu máli. „Ef niðurstaða í dómsmáli væri sú að íslenska ríkið ætti að greiða skaðabætur þá myndi almenn efnahagsþróun skipta minna máli og gengisþróun á tíma dómsmálsins engu máli skipta. Ástæða þess er sú, að bætur yrðu alltaf dæmdar í íslenskum krónum. Af þeim sökum væri minni efnahagsleg áhætta til staðar og engin gengisáhætta,” segir Reimar og bætir við: „Niðurstaðan er því einfaldlega sú, að dómstólaleiðin er áhættuminni. Þess vegna er ómögulegt að fullyrða, eins og lögmennirnir þó gera, að kostnaðurinn við dómstólaleiðina muni reynast okkur meiri en kostnaðurinn af Icesavesamningnum. Í raun er líklegra að hann reynist minni.”

Grein Reimars má lesa í heild sinni hér:

Ódýr almenn skynsemi

Með yfirlýsingu dags. 15. mars 2011 lýstu átta hæstaréttarlögmenn því sem „dýrkeyptum glannaskap“ að ætla íslenska ríkinu að verja sig af verulega vafasömum kröfum sem Bretar og Hollendingar hafa gert á hendur því. Þessi skoðun lögmannanna á ekki við rök að styðjast og vil ég nú skýra það nánar:

1. Lögmennirnir telja að dómstólaleiðin sé háð öllum sömu áhættuþáttum og felast í Icesavesamningnum, þ.e. áhættu af heimtum úr þrotabúi Landsbankans, af almennri efnahagsþróun og af gengisþróun. Þetta álit lögmannanna fær ekki staðist. Skal það nú skýrt nánar:

Ef niðurstaða í dómsmáli væri sýkna skiptu þessir áhættuþættir engu máli.

Ef niðurstaða í dómsmáli væri sú að íslenska ríkið ætti að greiða skaðabætur þá myndi almenn efnahagsþróun skipta minna máli og gengisþróun á tíma dómsmálsins engu máli skipta. Ástæða þess er sú, að bætur yrðu alltaf dæmdar í íslenskum krónum. Af þeim sökum væri minni efnahagsleg áhætta til staðar og engin gengisáhætta.

Niðurstaðan er því einfaldlega sú, að dómstólaleiðin er áhættuminni. Þess vegna er ómögulegt að fullyrða, eins og lögmennirnir þó gera, að kostnaðurinn við dómstólaleiðina muni reynast okkur meiri en kostnaðurinn af Icesavesamningnum. Í raun er líklegra að hann reynist minni.

2. Lögmennirnir virðast leggja áherslu á álit alþjóðlegra lánshæfismatsfyrirtækja á Icesavedeilunni. Þar horfa þeir hins vegar fram hjá því að matsfyrirtækin byggja sitt álit á þeim upplýsingum sem viðkomandi útgefandi - í okkar tilviki Ísland - veitir á hverjum tíma. Nú háttar svo til að íslensk stjórnvöld hafa lýst hræðilegum sviðsmyndum ef samningurinn yrði felldur. Af þeim sökum er ekki einkennilegt að fulltrúar matsfyrirtækjanna horfi af varúð til þess. Væri þeim hins vegar bent á hið sanna - að þessi leið sé áhættuminni en Icesavesamningurinn - myndu þeir hins vegar væntanlega fljótt skipta um skoðun.

3. Lögmennirnir átta virðast síðan leggja mikla áherslu á orðspor ESA og árangur stofnunarinnar af málarekstri fyrir EFTA-dómstólnum. Stofnunin hafi jú unnið 27 af 29 málum. En hvernig hafa þessi mál verið? Þau hafa verið mjög mismunandi að sniðum, og reyndar mörg þeirra einföld og borðleggjandi. Þessi tölfræði er því yfirborðskennd og varhugaverð. Eftir stendur hins vegar að okkar málstaður er sterkur. Um það hefur m.a. einn áttmenninganna tjáð sig í ræðu og riti.

4. Lögmennirnir virðast óttast mjög að EFTA-dómstóllinn kveði upp áfellisdóm í samningsbrotamáli. Sá ótti er óskiljanlegur. Slíkur dómur yrði viðurkenningardómur og staðfestir því réttarbrot. Hann segir hins vegar ekkert um afleiðingar þess fyrir einstaklinga. Um afleiðingarnar gagnvart einstaklingum yrði dæmt af íslenskum dómstólum sem myndu, eftir atvikum, afla álits EFTA-dómstólsins. Það væru síðan íslenskir dómstólar sem myndu á endanum meta hvort skaðabótaskylda hefði stofnast, hvort tjón væri til staðar, hver væri fjárhæð þess og hvaða vexti ætti að greiða ef því væri að skipta. Í slíku máli stæðum við sterkum fótum hvað sem liði niðurstöðu samningsbrotamálsins.

5. Lögmennirnir rökstyðja ótta sinn við tap í samningsbrotamáli með því að ESA gæti farið aftur í samningsbrotamál ef íslenska ríkið myndi ekki greiða skaðabætur. Þetta er ástæðulaus ótti. Eins og fyrr segir, þá dæmir EFTA-dómstóllinn um tilvist samningsbrots, en ekki um hvort skaðabótaskylda hafi stofnast gagnvart einstaklingum í einstaka tilfellum. Trúa lögmennirnir því að þessi regla EES-samningsins geti breyst við það að ESA fari aftur og aftur í mál? Trúa þeir því kannski að EFTA-dómstóllinn yrði svo leiður á málshöfðunum ESA á endanum að hann myndi gefa eftir og dæma um bótaskyldu? Slíkt er vitaskuld fráleitt.

6. Síðan horfa lögmennirnir til þess, að áfellisdómur í samningsbrotamáli yrði okkur til mikilla vandkvæða á »vettvangi alþjóðastjórnmála«. Þetta fær ekki staðist og það má ráðleggja lögmönnunum að svipast aðeins um á umræddum vettvangi. Við værum nefnilega ekki ein á báti í þessum efnum.

7. Hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eru t.d. á hverjum tíma til meðferðar um 3.000 samningsbrotamál vegna tafa á innleiðingu Evrópureglna eða vegna ófullkominnar innleiðingar. Þá má nefna sem dæmi að á árinu 2007 þurfti framkvæmdastjórnin að höfða sjö ítrekunarmál þar sem aðildarríki höfðu í engu sinnt dómum í samningsbrotamálum. Þó er það svo að framkvæmdastjórnin getur krafist sekta vegna vanrækslu á að fylgja eftir dómum í samningsbrotamálum, ólíkt því sem gildir um ESA. Þess eru dæmi að aðildarríkin hafi virt dóma og ítrekunardóma í samningsbrotamálum að vettugi svo árum skiptir og jafnvel í 15 ár. Það er því ástæðulaust að láta eins og Íslendingar yrðu fyrstir ríkja til að teljast hafa gerst brotlegir við reglur á sviði Evrópuréttar.

8. Hvaða máli skiptir það þá að við töpum einu samningsbrotamáli fyrir EFTA-dómstólnum? Nákvæmlega engu, með hliðsjón af þessu. Við eigum þá að bregðast við og gera ráðstafanir, t.d. að fyrirbyggja að þetta geti nokkurn tíma gerst aftur. Þar með hefðum við fullnægt dóminum. Ef Bretar og Hollendingar gerðu athugasemdir við það á »vettvangi alþjóðastjórnmála« mætti bara benda þeim á hvernig málum væri háttað á þeim vettvangi. Það er algjörlega fjarstæðukennt að það myndi leiða til þess að EES-samningnum yrði sagt upp og að við myndum sæta viðskiptahindrunum vegna þess.

Lögmennirnir átta enda yfirlýsingu sína á því að lýsa mjög auðmjúkri afstöðu til lífsins og tilverunnar. Við eigum ekki að »þykjast ósigrandi«! Er einhver að þykjast ósigrandi? Það er einfaldlega verið að benda á að hér höfum við allt að vinna og engu að tapa. Það þarf ekki að »þykjast ósigrandi« til að taka slíkan slag. Það eina sem þarf til er heilbrigður skammtur af ódýrri almennri skynsemi.

Það er óþarfi að safna undirskriftum fyrir þessu. Rökin tala sínu máli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK