Ferðin um Beinu brautina er hæg

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Sverrir Vilhelmsson

Mun hægar gengur að koma íslenskum fyrirtækjum á „beinu brautina“ svokölluðu, en áætlanir gerðu ráð fyrir. Kom þetta fram í máli Finns Oddssonar, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, á fundi um Beinu brautina í dag.

Beina brautin byggir á samkomulagi stjórnvalda og samtaka fyrirtækja og atvinnurekenda og snýr að úrvinnslu skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Benti Finnur á að samkvæmt upprunalegri áætlun hefði verið gert ráð fyrir því að um 5.000 til 7.000 fyrirtæki gætu gengið brautina, en núverandi áætlun gerir hins vegar ráð fyrir því að brautin standi um 1.655 fyrirtækjum opin. Þrátt fyrir þessa miklu fækkun hefur gengið hægar en búist var við. Aðeins hafa mál um 275 fyrirtækja verið kláruð, þótt í einhverjum tilvikum eigi eftir að klára skjalagerð.

Finnur segir að nokkrar ástæður liggi þar að baki, þar á meðal tregi á meðal fyrirtækja til að koma til banka og óska eftir því að úr málum þeirra verði leyst eftir markmiðum Beinu brautarinnar. Mörg fyrirtæki bíði dómsúrlausnar um gengislán. Þá séu þessi verkefni flókin og ágreiningur getur verið milli fyrirtækis og banka um verðmat eigna og aðkoma hins opinbera hafi ekki verið næg.

Hann segir að mikilvægt sé að byggja upp traust á milli banka og fyrirtækja og kynna Beinu brautina betur fyrir fyrirtækjum, því ekki sé hægt að stóla á að staðan verði nokkuð betri í framtíðinni. Alltaf ríki óvissa um úrlausn dómsmála og ekki sé víst að þeir kostir sem nú standa opnir haldist opnir ef dómsmálið endar illa fyrir fyrirtækin.

Á fundinum töluðu nokkrir framkvæmdastjórar fyrirtækja, sem gengið hafa í gegnum þetta ferli. Sögðu þeir að reynsla þeirra hefði almennt verið góð, en vissulega hafi ferlið verið tímafrekt. Nefndu þeir að smærri fyrirtæki skortir mörg sérþekkingu til að geta farið í gegnum þessi flóknu fjárhagslegu málefni með bankanum á jafnræðisgrundvelli, en sérfræðiþjónusta væri dýr. Réttlátara væri ef banki og fyrirtæki deildu kostnaði við slíka þjónustu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir