Raddir um greiðsluþrot þagnaðar

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði þegar hann setti ársfund Seðlabankans í dag, að raddir um greiðsluþrot ríkissjóðs hefðu þagnað. Gjaldeyrisforðinn væri nú meiri í hlutfalli af landsframleiðslu, en dæmi væru um. 

Már sagði að vísbendingar væru um, að veikur efnahagsbati hafi hafist á þriðja fjórðungi síðasta árs og spár geri ráð fyrir að hann muni halda áfram á þessu ári.

„Batinn er hins vegar enn sem komið er veikur, ekki síst í ljósi hins mikla slaka sem til staðar er. Í þessu sambandi er ekki síst áhyggjuefni að atvinnuvegafjárfesting er enn lítil í sögulegu samhengi og vöxtur útflutnings fremur lítill í ljósi lágs raungengis krónunnar og kröftugs bata alþjóðaviðskipta. Hér skiptir miklu að helstu útflutningsgreinar eru háðar framleiðslutakmörkunum og aukinn útflutningur verður því ekki í neinum teljandi mæli án fjárfestingar. Hins vegar er góður vöxtur í þeim greinum sem ekki búa við slíkar takmarkanir en hlutdeild þeirra er þó enn lítil," sagði Már.

Hann sagði, að næstu krossgötur stöfuðu af því að erlend lausafjárstaða þjóðarbúsins hefði stórbatnað samfara auknum gjaldeyrisforða.

„Forðinn í lok febrúar nam 719 milljörðum króna sem samsvarar 46% af landsframleiðslu. Hann hefur aldrei verið meiri á þennan mælikvarða, jafnvel ekki í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Aukinn forði, meiri stöðugleiki, framgangur áætlunar um afgang á ríkissjóði á komandi árum og uppkaup erlendra skulda ríkissjóðs á eftirmarkaði hafa síðan orðið til þess að raddir um greiðsluþrot ríkissjóðs hafa þagnað. Þetta ræður miklu um það að nú er talið óhætt að vinna að losun gjaldeyrishafta og að skilyrði fyrir erlenda lántöku ríkissjóðs hafa batnað verulega en hún gæti rutt öðrum innlendum aðilum brautina," sagði Már.

Hann sagði, að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-samninginn um næstu helgi gæti auðvitað sett strik í þennan reikning. Verði niðurstaðan já muni haftaafnám og lántökur ríkissjóðs ganga fram eins og áformað er. Verði Icesave-samningnum hafnað séu hins vegar vísbendingar um að stóru bandarísku matsfyrirtækin tvö ákveði að setja lánshæfismat ríkissjóðs niður í spákaupmennskuflokk.

„Þá  verður þyngra fyrir fæti varðandi erlenda lántöku ríkissjóðs og framgangur áætlunar um afnám gjaldeyrishafta myndi af þeim sökum ganga hægar. Óvissa er hins vegar um hversu sterk og langvinn þessi áhrif yrðu," sagði Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK