Viðtal: Óvíst að vextir hækki

Jón Gunnar Jónsson, bankamaður, hefur áralanga reynslu af störfum á ...
Jón Gunnar Jónsson, bankamaður, hefur áralanga reynslu af störfum á alþjóðafjármálamarkaði.

Verði Icesave-samningurinn felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu mun það ekki hafa mikil áhrif á lánsfjárkostnað íslenska ríkisins. Þetta segir Jón Gunnar Jónsson, bankamaður.

„Moody´s sagði í skýrslu sinni að fyrirtækið mundi líklega lækka lánshæfismat íslenska ríkisins niður í „ruslflokk“, ef Icesave samningurinn yrði felldur. Að mínum dómi mun lækkun Moody´s ekki hafa nein meiri háttar áhrif á lánsfjárkostnað íslenska ríkisins. Í fyrsta lagi, veit ég ekki til þess að neinar skuldir íslenska ríkisins hafi ákvæði þar sem vaxtakostnaður hækkar við að lánshæfi sé lækkað í ruslflokk. Í öðru lagi bendir ekkert til þess að fjármálamarkaðir taki mark á hættuspá Moody´s. Frá því að Moody´s gaf út álit sitt 23. febrúar hefur skuldatryggingarálag á Íslandi lækkað, en hefði hækkað ef markaðir hefðu verið sammála Moody´s. Skuldatryggingarálag endurspeglar vaxtakjör sem ríkið getur fengið á erlendum mörkuðum: skuldatryggingarálagið endurspeglar álag sem lántakendur fá á lánum sínum yfir LIBOR vöxtum. Í þriðja lagi, hafa fjármálamarkaðir tilhneigingu að vera á undan matsfyrirtækjum áhættumati. Þetta var sérstaklega satt með Moody´s og íslensku bankana. Til dæmis, þá breytti Moody´s lánshæfismati sínu á íslensku bönkum ekkert á milli febrúar 2007 og apríl 2008, en samt hækkaði skuldatryggingarálag þeirra um 600 punkta (6%) á þessum tíma,” segir Jón Gunnar.

Hann heldur áfram: „Í fjórða lagi, að þrátt fyrir að skuldatryggingarálagið og fjármagnskostnaður íslenska geti hækkað við lækkun lánshæfismats, næmi hækkuninn aldrei þeim 3% sem nýleg grein í Fréttablaðinu gefur í skyn („kostnaðurinn á ári á bilinu 27 til 43 milljarðar“). Fyrir því eru tvær ástæður: Annars vegar að heildarskuldir ríkissjóðs eru um 1.300 milljarðar, þar af erlendar skuldir 350 milljarðar. Lækkun lánshæfismats hefði aðeins hverfandi, ef einhver áhrif, á kjör á innlendum lánum. Hins vegar getum við litið til tveggja, nýlegra dæma úr heiminum, lækkun lánshæfismats Grikklands í júní 2010 og Ford í ágúst 2005 niður í Ba1 (hvort tveggja frá Moody´s), þá stóð skuldatryggingarálagið í stað hjá Ford, en hækkaði um 87 punkta (sem samsvarar 0.87% vöxtum) hjá Grikklandi. Lánshæfismats Grikklands á þeim tíma lækkaði hins vegar um fjögur stig (frá A3) en skuldatryggingarálagið var þegar um 800 punktar fyrir lánshæfismatslækkunina, sem enn og aftur staðfestir hversu langt skuldatryggingarmarkaðir eru á undan lánshæfismatsfyrirtækjunum í greiðslufallsáhættumati.”

Lítil fylgni milli skuldatrygginga og lánshæfismats

Í fimmta lagi nefnir Jón Gunnar að samanburður á lánshæfismati og skuldatryggingarálagi sýni að lítil fylgni sé á milli lánshæfismats Moody´s og skuldatryggingarálags. „Ef fylgnin væri sterk, ætti lægra lánshæfismat að þýða hærra skuldatryggingarálag (og öfugt),” segir hann. „Skuldatryggingarálag á Íslandi er svipað og á Spáni, en samt er spænska ríkið með mun hærra lánshæfismat (Aa2) en Ísland (Baa3). Skuldatryggingarálag Íslands er hins vegar lægra (um 230 punktar) en álagið á Írlandi og Portúgal (hvort tveggja um 600 punktar), en samt er lánshæfismat þessara ríkja hærra (Baa1) en lánshæfismat Íslands.”

Upphaflega vegna járnbrautaframkvæmda

Jón Gunnar rifjar upp tilurð matsfyrirtækja í samtali við mbl.is: „Það var náungi sem hét John Moody sem hóf að gefa járnbrautum í Bandaríkjunum lánshæfismat upp úr 1900. Um 1930 voru kynntar reglugerðir fyrir fjármálafyrirtæki í Bandaríkjunum sem notuðust við lánshæfistmat, og sögðu að þau sem væru með lánshæfismatið Baa mættu vera bókfærð á kostnaðarverði, en önnur skuldabréf á markaðsverði. Hugtökin “investment grade” og “non-investment” grade þróuðust upp úr þeim, þannig að það hafði einungis áhrif á hvaða verði bókfæra mætti þessi skuldabréf. Þau bréf eru „investment grade” sem hafa mati Baa3 upp í Aaa, en „non-investment grade” sem hafa lánshæfið Ba1 niður í Caa3. Þessi hugtök hafa haldist síðan og hafa markað spor sín á hvernig fyrirtækjaskuldabréf eru markaðssett og hvaða skilmálar fylgja þeim. Hins vegar eru skilmálar ríkisskuldabréfa óháð lánshæfismati, t.d. vegna þess að eignir þeirra eru friðhelgar. Þess vegna hefur lækkun lánshæfismats engin áhrif á skilyrði skuldabréfa ríkja, en gætu að sjálfsögðu haft áhrif á vaxtakjör.“

„Ruslbréfa“-hugtakið fundið upp á níunda áratugnum

„Hugtakið “junk bonds” var upphaflega notað upp úr 1980 þegar Michael Milken endurvakti áhuga markaða á þessum skuldabréfum.  Hins vegar notar Moody´s hugtakið „speculative grade” og ég sá að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, notaði það í ræðu sinni á 50 ára afmæli Seðlabankans þar sem hann kallar þetta spákaupmennskuflokk,“ segir Jón Gunnar.

Í Bandaríkjunum eru um 1000 milljarðar dollara útistandandi í skuldabréfum í spákaupmennskuflokki, að sögn Jóns Gunnars. „Í Evrópu er að sama skapi eru útistandandi aðrir 140 milljarðar evra í þessum spákaupmennskuflokki. Þetta er gríðarlega stór markaður og mikið um að fyrirtæki gefi skuldabréf á þessum markaði, eins og t.d. dótturfyrirtæki Bakkavarar um daginn.  Það eru mörg heimsþekkt fyrirtæki í þessum flokki t.d. bílafyrirtækin Ford, Fiat og Renault og flugfélagið Lufthansa,” segir Jón Gunnar að endingu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir