Horfið fram á veginn

Danske Bank.
Danske Bank. mbl.is/GSH

Lars Christiansen, forstöðumaður greiningardeildar Danske Bank, segir að Íslendingar þurfi að hætta að velta sér upp úr hruninu og horfa fram á veginn.

Christiansen ræðir nú ástand og horfur í íslenska hagkerfinu á morgunverðarfundi VíB.

Hann hvatti Íslendinga til að hætta að velta sér upp úr hruninu og eftirhreytum þess. Enda væri ástæða til bjartsýni á Íslandi.

„Ég tel ekki að nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni muni hafa meiriháttar áhrif á stóru myndina í íslenska hagkerfinu. Hvers vegna ekki? Ef að hreyfanleiki fjármagns væri einhver á Íslandi hefðu áhrifin kannski verið einhver. Hins vegar eru gjaldeyrishöft og lítil erlend fjárfesting á Íslandi, svo að ég reikna ekki með nei-ið hafi mikil áhrif. Hefði já orðið ofan á ef þjóðhagfræðilegar horfur á Íslandi væru aðrar? Mitt svar er kannski,“ sagði Christiansen.

Í greiningu Danske Bank á íslensku efnahagslífi  kemur meðal annars fram að það versta sé nú yfirstaðið í íslensku efnahagslífi. Efnahagur landsins sé á batavegi og verg landsframleiðsla aukist í kringum 3 til 4% á ári á næstu tveimur til þremur árum.

Bankinn segir, að helstu ástæður fyrir batnandi efnahag séu m.a. jákvæður vöruskiptajöfnuður, lækkun á fasteignaverði, minni verðbólga og vanmat á íslensku krónunni. Þá gefur Danske Bank  sér þá tæknilegu forsendu að íslenska krónan muni styrkjast um allt að 25% á næstu þremur árum. Vanmat á íslensku krónunni ætti að gera afléttingu gjaldeyrishafta auðveldari en óttast er.

Höfnun Icesave hamlar ekki vexti

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir