Spáir minni hagvexti

mbl.is/Ernir

Seðlabankinn segir nú, að útlit sé fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði um 2,3%, sem er nokkru minna en spáð var í febrúar. Þá spáði Seðlabankinn 2,8% hagvexti í ár.

Jafnframt gerir bankinn nú ráð fyrir minni hagvexti á næstu tveimur árum eða rétt undir 3% á ári í stað rúmlega
3%.

Þetta kemur fram í Peningamálum, ársfjórðungsriti bankans. Þar segir, að jafnframt sé útlit fyrir að samdráttur landsframleiðslu á síðasta ári hafi verið meiri en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í byrjun febrúar eða 3,1% í stað 2,7%. Hann sé þó í áætlun Seðlabankans minni en bráðabirgðatölur Hagstofunnar gefi til kynna, en samkvæmt þeim nam samdrátturinn 3,5%.

Seðlabankinn segist enn telja, að landsframleiðslan hafi byrjað að aukast á ný milli ársfjórðunga um mitt ár í fyrra. Spá Seðlabankans frá því í febrúar gerði ráð fyrir að batinn yrði nokkuð brokkgengur og að tímabundið bakslag yrði í ársfjórðungsvexti landsframleiðslunnar á fyrri hluta þessa árs. Nú virðist hins vegar sem bakslagið hafi verið heldur fyrr á ferðinni og komið á síðasta fjórðungi síðasta árs. Segir bankinn, að það skýrist að mestu af kröftugri innflutningi en áður var spáð. 

Endurheimt landsframleiðsla árið 2014

Í Peningamálum segir, að þegar landsframleiðslan náði lágmarki um mitt síðasta ár hafði hún dregist saman um 11½% frá því að hún náði hámarki í aðdraganda
fjármálakreppunnar en nú sé hún talin tæplega 11% lægri. Hafa verði þó í huga að í aðdraganda kreppunnar var landsframleiðslan orðin töluvert umfram það sem talist geti sjálfbært.

Miðað við horfur um hagvöxt næstu tveggja ára sé talið að þessi tapaða framleiðsla verði að fullu endurheimt í lok spátímans, um mitt ár 2014.

Álver í Helguvík forsenda

Grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir framkvæmdum í tengslum við fyrsta áfanga við byggingu álvers í Helguvík og miðar við, að framkvæmdir við álverið og tengdar orkuframkvæmdir fari á fulla ferð árið 2012 og nái hámarki á árinu 2013. 

Bankinn segir, að þessum framkvæmdum hafi ítrekað seinkað vegna vandamála við fjármögnun, óvissu um aðgengi að nægilegri orku og vandamála í tengslum við skipulags- og leyfismál. Sé nú svo komið, að líkur á því að þær verði slegnar af um óákveðinn tíma hafa aukist, sérstaklega í kjölfar niðurstöðu Icesave-atkvæðagreiðslunnar. 

Það myndi fyrst og fremst hafa áhrif á efnahagsþróunina á árunum 2012-2013 ef ekki yrði af þessum framkvæmdum. Vöxtur heildarfjármunamyndunar yrði líklega um 10 prósentum minni á næsta ári og um 5 prósentum minni árið 2013, að mati Seðlabankans.

Peningamál

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK