Gengu milli banka

Ekki að því hlaupið að taka út af gjaldeyrisreikningum á …
Ekki að því hlaupið að taka út af gjaldeyrisreikningum á Íslandi. Reuters

Fulltrúar Ice Fresh Seafood, dótturfélags Samherja leituðu til þriggja banka vegna úttektar á gjaldeyri. Átta starfsmenn fyrirtækisins voru á leið á sjávarútvegssýningu erlendis. Að lokum veitti Seðlabankinn undanþágu vegna úttektarinnar, sem hljóðaði upp á 7.400 evrur, eða 1,2 milljónir króna.

Upphaflega leitaði Ice Fresh Seafood til Íslandsbanka á Akureyri, sem varð ekki við beiðni fulltrúa fyrirtækisins. Ice Fresh Seafood kom einnig að lokuðum dyrum í útibúi Arion banka á Akureyri. Eftir nokkurt þref leit út fyrir að starfsstöð Arion banka í Kringlunni myndi heimila úttektina, fyrir milligöngu fyrirtækjafulltrúa Samherja. Svo fór þó að aðalféhirðir Arion banka stöðvaði úttektina.

Steinn Símonarson, fjármálastjóri Ice Fresh Seafood, segir í samtali við mbl.is að Seðlabanki Íslands hafi að lokum umsvifalaust veitt undanþágu vegna úttektarinnar. Fyrirtækið hafi oft tekið út af gjaldeyrisreikningum sínum frá því að lög um gjaldeyrishöft hafi verið sett, en slíkar úttektir hafi aldrei valdið vandamálum eins og nú síðast. „Þetta hefur aldrei verið stoppað algerlega eins og núna. Ég átta mig ekki á hvað veldur,“ segir hann. 

Sem áður sagði jafngilda 7.400 evrur um 1,2 milljónum króna. Samkvæmt lögum um gjaldeyrismál getur hver og einn einstaklingur tekið út jafnvirði 320.000 króna í gjaldeyri gegn framvísun flugmiða. Starfmenn Ice Fresh Seafood hefðu því getað tekið út tæpar 2,6 milljónir í erlendum gjaldeyri, hefðu þeir gert það á eigin reikning. Kostnaður hefði þó myndast við það, þar sem munur á kaup- og sölugengi bankanna á erlendum gjaldeyri er talsverður.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skrifaði pistil um málið á heimasíðu Samherja í gær. Þar segir meðal annars: „ Þetta ferli að fá að nota evrur Ice Fresh Seafood til að greiða kostnað félagsins spannaði tvo vinnudaga. Það komu ekki færri en 13 starfsmenn fjögurra fyrirtæka og stofnanna  að verkefninu og varlega áætlað má ætla að þeir hafi samtals notað meira en 15 vinnustundir til að leysa þetta viðamikla  verkefni.  Það voru skrifuð tvö formleg bréf, það voru skrifaðir fjöldi tölvupósta og símtölin eru talin í tugum.   Við náðum að fá undirskrift aðstoðarseðlabankastjóra Íslands á annað bréfið og ætla má að kostnaður við að afgreiða okkur um þessar Evrur af eigin reikningi  nemi um þriðjungi  af heildar upphæðinni sem óskað var eftir að taka út.“

Þorsteinn heldur áfram: „Að undanförnu hefur verið fjallað nokkuð um starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi.  Er óeðlilegt í því sambandi að maður spyrji sig :  Er hagkvæmt að reka alþjóðlegt sölu- og markaðsfyrirtæki á Íslandi ef það tekur tvo daga að taka út  farareyri  af  reikningi fyrirtækis,  handa starfsmönnum þess?“

Pistill Þorsteins má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK