Réttað í Exeter-máli

Vitnaleiðslur hafa haldið áfram í svonefndu Exeter Holding máli í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar eru þrír  fyrrum stjórnendur sparisjóðsins Byrs og MP banka ákærðir vegna lánveitingar til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr í október 2008.

Málið er höfðað vegna 1,1 milljarðs króna lánveitingar Byrs til Exeter Holding til að kaupa stofnbréf sem voru í eigu MP banka. Eru Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi formaður stjórnar Byrs og Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrum sparisjóðsstjóri ákærðir fyrir umboðssvik. Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, er ákærður fyrir hlutdeild í brotinu en lánið er talið hafa takmarkað tjón MP-banka á kostnað sparisjóðsins.

Exeter Holdings keypti 1,8% stofnfjárhlut á yfirverði fyrir lánin. Meðal þeirra sem seldu voru MP banki og tveir stjórnarmenn í Byr. MP banki hafði eignast bréfin í Byr eftir veðkall í bréf sparisjóðsstjóra Byrs og tveggja annarra stjórnarmanna. 

Tekin var skýrsla af þremur mönnum gegnum síma en þeir eru allir staddir í útlöndum. Þeirra á meðal var Margeir Pétursson, fyrrverandi stjórnarformaður MP banka, sem er í Úkraínu.

Hann sagði að  Styrmir Þór hefði sagt sér frá því í september 2008, að Byr vildi taka yfir fjármögnun á stofnfjárbréfum í sparisjóðum, m.a. vegna þess að lánin á bak við bréfin, sem voru í erlendum myntum, höfðu hækkað og áhættustýring MP banka hefði krafist meiri trygginga vegna stofnbréfa, sem höfðu verið sett að veði fyrir lánum.   

Margeir sagði, að fyrir hefði legið að stofnfjárbréf í Byr væru til sölu með fjármögnun frá Byr. Borið hefði verið undir hann hvort hann þekkti fjárfesti, sem hefði áhuga á málinu og hann stakk upp á Ágústi Sindra Karlssyni. Þetta frumkvæði hefði komið frá Byr.

Margeir sagði, að sig minnti að hann hefði hringt í Ágúst Sindra og kynnt fyrir honum, að þarna væri færi á að eignast  stofnfjárbréf í Byr með fjármögnun. Margeir sagðist ekki vita hvaða hugmyndir Byr hafði um fjármögnunina og að Ágúst Sindri hefði orðið að ganga frá skilmálunum sjálfur. Ágúst Sindri hefði síðan haft samband við MP banka og á endanum fóru viðskiptin fram. Sagðist Margeir ekki hafa komið að því.

Björn Þorvaldsson, saksóknari, sagði að til hefði staðið að Fleða, dótturfélag MP banka, keypti stofnbréfin og hefði fengið yfirdráttarheimild til þess. En síðan hefði verið skipt um kaupanda og í október 2008 hefði Byr veitt Tæknisetrinu Arkea, sem síðar varð Exeter Holdings, 800 milljóna lán til að kaupa bréfin. Lánið var síðan framlengt og hækkað í desember.

Margeir sagði, að sér vitandi hefði Fleða aldrei verið inni í myndinni sem kaupandi að bréfunum og það kæmi sér  mjög á óvart ef svo hefði verið. Ekki hefði staðið til að dótturfélag MP yrði stofnfjáreigandi í Byr enda hefði bankinn verið að draga sig út úr hlutabréfaviðskiptum á þessum tíma. Einnig væri ekki æskilegt að fjármálafyrirtæki ættu hlut í öðrum slíkum fyrirtækjum því sú eign kæmi niður á svonefndu CAD eiginfjárhlutfalli.

Björn spurði hvort Margeir hefði vitað, að á sama tíma og þessu fór fram hefði MP banki tilkynnt Ágústi Sindra um gjaldfellingu á lánum til fjárfestingarfélags hans, ÁSK ehf. Margeir sagðist ekki hafa vitað um þessa stöðu. Hann sagði, að áhættustýring MP banka hefði verið í stríði við    marga viðskiptavini á þessum tíma enda hefði gengi krónunnar snarfallið og tryggingarstaða margra viðskiptavina versnað. Þetta hafi því verið daglegt brauð.

Margeir sagði aðspurður, að þessu máli hljóti að hafa lokið með gjaldfellingu lánanna til ÁSK ehf. og hann kannaðist ekki við að þessi mál hafi tengst á neinn hátt.

Björn vitnaði í tölvupóst, sem sendur var innan MP banka 14. nóvember 2008, þar sem fram kom að lánin til ÁSK ehf. hefðu ekki verið gjaldfelld vegna „Byr-dílsins“. Margeir sagðist ekki átta sig á hvaða samhengi væri þarna á milli.

Farm kom í svari við spurningu Ragnars H. Hall, verjanda Styrmis, að stjórnendur MP banka höfðu áhyggjur af lausafjárstöðu bankans á þessum tíma. Erlendir lánardrottnar hefðu gert  veðköll á bankann vegna þess að þeir mátu íslenska áhættu öðruvísi en áður og vildu ekki hafa nein íslensk skuldabréf í sínum bókum.

Margeir sagðist hafa verið sáttur við þau málalok að byr myndi yfirtaka fjármögnunina á stofnbréfunum enda hefði það lagað lausafjárstöðuna.   

Í dómnum kom fram, að Exeter Holding var úrskurðað gjaldþrota í byrjun maí. Skiptastjóri félagsins sagði að engar eignir hefðu fundist í félaginu þótt það væri enn skráð fyrir stofnfé í Byr.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir