Tekjur ríkisins lækka en gjöld lækka meira

Tekjur ríkissjóðs á fyrstu fjórum mánuðum ársins minnkuðu um þrjá og hálfan milljarð frá sama tímabili ársins 2010. Gjöld lækkuðu einnig, um 13,6 milljarða króna, þannig að afkoman var rúmum 10 milljörðum betri á tímabilinu en því sama árið áður.

Tekjujöfnuður var þannig neikvæður um 14 milljarða, borið saman við rúma 24 fyrstu fjóra mánuði ársins 2010.

Þegar tekjuhliðin er skoðuð kemur í ljós að skatttekjur og tryggingagjöld drógust saman um 1,5 milljarða króna milli ára. Tekjur af tekjuskatti á einstaklinga drógust saman um milljarð, tekjur af tekjuskatti á lögaðila hækkuðu um hálfan milljarð og tekjur af fjármagnstekjuskatti hækkuðu um 600 milljónir.

Tekjur af virðisaukaskatti lækkuðu um fjóra milljarða króna milli tímabilanna og alls lækkuðu tekjur af sköttum á vöru og þjónustu um 5,6%. Tryggingagjöld hækkuðu hins vegar um tæplega 1,7 milljarða króna.

Á gjaldahliðinni munar mestu um lægri vaxtagreiðslur, en þær lækkuðu um rúma sex milljarða króna milli ára. Vaxtagreiðslur eru illviðráðanlegur þáttur í rekstri ríkissjóðs – ekki hluti af svokölluðum frumjöfnuði – en þegar útgjöld til reglulegrar starfsemi ríkisins eru skoðuð kemur í ljós að gjaldaliðurinn „almenn opinber þjónusta“ lækkar um hálfan milljarð, löggæsla, réttargæsla og öryggismál lækka um tæpar 400 milljónir, heilbrigðismál lækka um 700 milljónir, menningar-, íþrótta- og trúmál um 300 milljónir, almannatryggingar um milljarð og óregluleg útgjöld um 1,4 milljarða. Aðrir útgjaldaliðir standa svo að segja í stað.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir