Seðlabankinn spáir 6,8% verðbólgu

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Verðbólguhorfur til skamms og meðallangs tíma hafa versnað til muna frá síðustu útgáfu Peningamála í apríl. Horfur eru á að verðbólga verði 5,6% á þriðja ársfjórðungi en í síðustu spá var gert ráð fyrir að hún yrði 3,3%. Samkvæmt spánni nær verðbólga hámarki á fyrsta fjórðungi næsta árs þegar hún verður 6,8%, samkvæmt nýútkomnum Peningamálum Seðlabanka Íslands.

„Miðað við forsendur um þróun hrávöru- og olíuverðs, tiltölulega stöðugt gengi krónunnar og áframhaldandi slaka í þjóðarbúskapnum er gert ráð fyrir að hún taki að hjaðna á ný þegar líða tekur á næsta ár og verði við verðbólgumarkmiðið á seinni hluta ársins 2013, sem er um ári seinna en reiknað var með í apríl.

Verri verðbólguhorfur en gert var ráð fyrir sl. vor skýrast að töluverðu leyti af áhrifum mikilla launahækkana í kjölfar kjarasamninganna auk hærri verðbólguvæntinga. Eins og áður hefur verið rakið eru áhrif aukins launaþrýstings nú þegar farin að koma fram.

Horfur eru einnig á heldur meiri verðhækkun hráolíu á þessu ári en gert var ráð fyrir í síðustu spá. Hætta er á að hröð aukning verðbólgu frá áramótum, launahækkanir og hækkun verðbólguvæntinga valdi því að verðbólga festist í sessi auk þess sem þróttur innlends þjóðarbúskapar, einkum einkaneyslu, verður nokkru meiri á þessu ári en gert hafði verið ráð fyrir," segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands.

Peningamál Seðlabanka Íslands

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK