Söluæði rann á fjárfesta

Erfiður dagur að baki í kauphöllinni í New York
Erfiður dagur að baki í kauphöllinni í New York Reuters

Söluæði rann á fjárfesta í Bandaríkjunum í dag í kjölfar þess að bankastjórn Seðlabanka Bandaríkjanna lýsti yfir efasemdum um heilbrigði bandarísks efnahagslífs. Á Wall Street lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur líkt og annars staðar í heiminum í dag.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan lækkaði um 390,03 stig eða 3,51% og er lokagildi hennar 10.734,81 stig. Dow Jones er nú 16% lægri heldur en hæsta gildi hennar á árinu, 12.810,54 stig og nálgast hratt lægsta gildi ársins 10.719,94 stig frá 10. ágúst sl. S&P 500-vísitalan lækkaði um 3,18% og Nasdaq lækkaði um 3,25%.

Það var fátt ef ekkert sem gladdi fjárfesta í dag. Ekki var nóg með að forsvarsmenn Seðlabanka Bandaríkjanna lýstu yfir áhyggjum sínum af ástandi mála heldur bætti Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um betur og sagði að ástandið í efnahagsmálum væri komið á hættulegt stig. Fyrr í dag sagði forstjóri Alþjóðabankans, Robert Zoellick, að efnahagur heimsins væri í hættu. 

Í Evrópu lækkaði FTSE-vísitalan í Lundúnum um 4,7%, CAC í París um 5,25% og DAX í Frankfurt um 5%. Ekkert félag hækkaði í þessum þremur stærstu kauphöllum Evrópu í dag. Lækkun FTSE-vísitölunnar í dag er sú mesta síðan 2. mars 2009 er hún lækkaði á einum degi um 5,3%.

Verð á hráolíu lækkaði einnig hressilega enda ljóst að eftirspurn mun minnka eftir hrávöru ef samdrátturinn verður verulegur í heiminum. Verð á Brent-Norðursjávarolíu lækkaði um 3,08% eða 3,42 Bandaríkjadali tunnan og er nú í kvöld skráð á 107,62 dali tunnan. Um tíma var lækkunin enn meiri en heldur dró úr henni í kvöld.

Á NYMEX-markaðnum í New York lækkaði verð á West Texas-hráolíu um 6,51% eða 5,59 dali og er tunnan nú seld á 80,35 dali, samkvæmt frétt Bloomberg.

Lagarde sagði á fundi með blaðamönnum í dag að staðan væri verri í dag en hún var fyrir þremur árum, þ.e. erfiðara væri að snúa aftur á beinu brautina. Hvatti hún leiðtoga heimsins til þess að grípa strax til aðgerða hvað varðar skuldir heimila og endurbóta á opinbera geiranum. Samkvæmt BBC sagði hún það lykilatriði að bankarnir yrðu styrktir því lánveitingar á alþjóðlegum mörkuðum væru nauðsynlegar til að auka vöxt hagkerfa heimsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir