Þreföldun hagnaðar

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Hagnaður vátryggingafélaga af skaðatryggingastarfsemi tæplega þrefaldaðist á milli ára en hann nam 2,6 milljarðar króna fyrir árið 2010 til samanburðar við einn milljarð á árinu 2009.

Hagnaður af líftryggingastarfsemi var óbreyttur á milli ára og hefur ekki tekið miklum breytingum á liðnum árum. Heildarhagnaður af vátryggingastarfsemi nam 4,1 milljarði króna fyrir árið 2010. Tap varð hins vegar af fjárfestingastarfsemi félaganna um tæpar 600 m.kr. og skýrist það helst af matsbreytingum á fjárfestingum sem samanlagt námu tæpum 2 ma.kr. á árinu. Þetta kemur fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins.

Miklar hræringar hafa átt sér stað á vátryggingamarkaði á undanförnum mánuðum. Nýir eigendur eru að Sjóvá-Almennum tryggingum hf., forstjóraskipti hafa farið fram hjá Vátryggingafélags Íslands hf. í maí sl. og nú í september hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. fékk á árinu 2009 fjárhagslega aðstoð frá ríkinu og var forðað frá yfirvofandi gjaldþroti. Söluferli félagsins hófs snemma árs 2010 og eftir að útboðsferli lauk, var félagið selt nú í sumar hópi fjárfesta, bæði einkaaðilum og lífeyrissjóðum.

Formleg kvörtun send til ESA

„Samkeppnisaðilar Sjóvár telja að aðkoma ríkisins hafi haft áhrif á stöðu samkeppni á vátryggingamarkaði og hafa sent formlega kvörtun til EFTA Surveillance Authority (ESA). Enn á eftir að taka ákvörðun í málinu en þess er að vænta að úrskurður liggi fyrir síðar á þessu ári," segir í ársskýrslu FME.

Ýmsir þættir í starfsemi Vátryggingafélags Íslands hf. á tímabilinu febrúar 2008 til febrúar 2010 voru teknir til athugunar hjá Fjármálaeftirlitinu. Athuguninni lauk með skýrslu þar sem fram komu athugasemdir við nokkra þætti í starfsemi félagsins og gerðar voru úrbótakröfur vegna þeirra. Niðurstaða úttektar var jafnframt sú að rétt væri að forstjóri félagsins viki sæti og lét hann af störfum í maí 2011.

Sambærileg úttekt var einnig framkvæmd hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Athuguninni lauk með skýrslu þar sem fram komu athugasemdir við nokkra þætti í starfsemi félagsins og gerðar voru úrbótakröfur vegna þeirra. Þeim úrbótum er nú að mestu lokið, segir ennfremur í skýrslu FME.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK