Skýrr kaupir Thor Data Center

Starfsmenn Thor Data Center við gámaeininguna.
Starfsmenn Thor Data Center við gámaeininguna.

Skýrr hefur fest kaup á öllu hlutafé í gagnaverinu Thor Data Center, sem tók til starfa í Hafnarfirði á síðasta ári. Aðaleigandi var Títan, fjárfestingafélag Skúla Mogensen. Stöð 2 greindi frá þessu. Með kaupunum verður Skýrr í hópi stærstu upplýsingatæknifyrirtækja á Norðurlöndum. Eru kaupin gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.

Thor Data Center var fyrsta gagnaverið til að hefja starfsemi hér á landi og stærsti viðskiptavinurinn hefur verið norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software. Haft var eftir Gesti Gestssyni, forstjóra Skýrr, á Stöð 2 að fyrirtækið hefði haft það til skoðunar undanfarna mánuði hvernig hægt væri að komast inn í gagnaversiðnaðinn. Þar væru mörg tækifæri fyrir Ísland. Skýrr gæti með þessum kaupum m.a. nýtt sölunet sitt á Norðurlöndunum. Engar uppsagnir eru fyrirhugaðar vegna sameiningar Skýrr og Thor Data Center.

Títan, fjárfestingafélag í eigu Skúla Mogensen, er greinilega að losa um eignir en félagið er stærsti eigandi MP-banka og tilkynnti nýlega áform um nýtt flugfélag, WOW Air, sem hefur áætlunarflug milli Íslands og Evrópu næsta sumar.

Skýrr er langstærsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins, með starfsemi í fjórum löndum. Starfsmenn eru um 470  talsins og tæplega 600 til viðbótar, sem starfa hjá dótturfélögum fyrirtækisins. Meðal dótturfélaga eru Hands í Noregi, Kerfi AB í Svíþjóð og Hugur-Ax.

Á vef Skýrr kemur fram að undanfarna 18 mánuði hafi fyrirtækið gengið í gegnum mikla sameiningarlotu og umbreytingarferli. Breytingarnar hófust 18. nóvember 2009 þegar fjögur fyrirtæki voru sameinuð í 340 manna upplýsingatæknifyrirtæki undir nafni Skýrr. Þetta voru Skýrr með 180 manns, Kögun með 80 manns, Landsteinar Strengur með 40 manns og Eskill með 20 manns.

Hinn 10. nóvember 2010 var EJS með 160 manns síðan sameinað Skýrr. Lokahnykkurinn á þessari sameiningarlotu var þegar þremur systurfyrirtækjum Skýrr innan Teymis-samstæðunnar var breytt í dótturfélög Skýrr. Samhliða því var Teymi lagt niður.

„Skýrr er í dag norrænt upplýsingatæknifyrirtæki með 1.100 starfsmenn í fjórum löndum. Við höfum lengi hugað að uppbyggingu gagnavers hér á landi, enda mikil sóknarfæri á þessu sviði á erlendum mörkuðum og þar búum við að eigin söluneti í Noregi og Svíþjóð. Högunin í uppbyggingu Thor Data Center kallast Tier3+," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr, í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í kvöld.

„Hjá Thor Data Center hefur verið unnið mikið frumkvöðlastarf hvað snertir markaðssetningu Íslands sem umhverfisvæns valkosts fyrir viðskiptavini gagnavera. Hjá Thor Data Center er frábært starfsfólk með mikla þekkingu á uppbyggingu og högun gagnavera. Verkefni gagnavera eins og Thor Data Center geta skapað þjóðinni miklar gjaldeyristekjur, sem hlýtur að vera mikilvægt atriði fyrir uppbyggingu atvinnulífsins alls. Við erum afar stolt af þessari góðu viðbót í Skýrr-fjölskylduna," bætir Gestur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK