Krefja bankann um endurgreiðslu

Margir eldri iðnaðarmenn voru í hópi stofnfjárhafa í Sparisjóðnum í …
Margir eldri iðnaðarmenn voru í hópi stofnfjárhafa í Sparisjóðnum í Keflavík. mbl.is/ÞÖK

Samtök sparifjáreigenda í Sparisjóðnum í Keflavík telja að endurgreiða eigi þeim stofnfjárhöfum sem greiddu fyrir aukningu stofnfjár 2007. Með tilkynningu um niðurfellingu lána viðurkenni Landsbankinn að ráðgjöf sparisjóðanna hafi verið röng eða ófullnægjandi.

„Þetta eru ótrúlegar gleðifréttir fyrir jólin,“ segir Þórunn Einarsdóttir sem á sæti í stjórn Samtaka sparifjáreigenda í Sparisjóðnum í Keflavík. Hún fagnar mjög ákvörðun Landsbankans að fella niður lán allra þeirra sem tóku lán hjá Sparisjóðnum í Keflavík vegna kaupa á nýju stofnfé í SpKef, Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Vestfirðinga í lok árs 2007.

„Það lýsir þroska hjá Landsbankamönnum, að gera þetta svona í stað þess að fara í málaferli gegn lánþegum og láta fólk standa í þessu árum saman,“ segir Þórunn.

Margir af stofnfjárhöfum í Sparisjóðnum í Keflavík eru fullorðið fólk, ekki síst iðnaðarmenn, sem lengi hafa átt stofnfé í sjóðnum. „Þetta er trygga sparisjóðsfólkið sem hefur verið með sín viðskipti í sparisjóðnum alla sína hunds- og kattartíð,“ segir Þórunn.

Hún segir að lagt hafi verið að fólkinu að taka sinn hlut í aukningunni, með sama hætti og gert var í Byr sparisjóði. Hæstiréttur felldi þau lán niður. Þórunn segir að svo virðist sem sömu aðferðir við kynningu og sölu á aukningu stofnfjár hafi verið notaðar í mörgum sparisjóðum.

Viðurkenna ranga ráðgjöf

Ákvörðun Landsbankans um niðurfellingu lána nær ekki til þeirra sem borguðu aukninguna á sínum tíma með sparifé eða tóku lán annars staðar fyrir henni. Þórunn segir að óskað verði eftir viðræðum við bankann um endurgreiðslu á því.

„Landsbankinn viðurkennir ranga ráðgjöf og það hlýtur þá að gilda um alla sem tóku þátt í stofnfjáraukningunni, hvort sem þeir tóku lán hjá sparisjóðnum, lán úr öðrum banka eða greiddu með sparifé sínu,“ segir Þórunn og segist munu krefja bankann um endurgreiðslu á þessu fé.

Engir peningar eru í þrotabúi Sparisjóðsins í Keflavík. Stofnfjárhafar sem jafnframt skulduðu í sparisjóðnum gerðu kröfu í þrotabúið um skuldajöfnun.

Þórunn segir að fram sé komið að bankinn hafi verið sérstaklega illa rekinn og í raun hafi stofnfjárhafar verið blekktir til að kaupa gallaða vöru. Hún segir að Samtökin séu að skoða að gera skaðabótakröfu á hendur stjórnendum, stjórnarmönnum og endurskoðendum sparisjóðsins sem ábyrgð báru á rekstrinum og þeim upplýsingum sem gefnar voru út um hann.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK