Fréttaskýring: Brotthvarf ekki óhugsandi

Reuters

Þrátt fyrir að svo virðist sem yfirvofandi greiðsluþroti gríska ríkisins hafi verið afstýrt þá er ljóst að Grikkir standa enn sem fyrr frammi fyrir miklum efnahagsþrengingum. Stefnusmiða Grikklands bíður það erfiða verkefni að framkalla nægjanlegan hagvöxt á næstu árum eigi að takast að grynnka á ósjálfbærri skuldastöðu ríkisins – og á sama tíma að halda áfram að skera harkalega niður hjá hinu opinbera.

Helstu hlutabréfavísitölur í evrópskum kaupöllum hækkuðu skarpt í gær vegna ákvörðunar gríska þingsins að samþykkja frekari niðurskurðartillögur sem eru forsenda þess að ráðamenn á evrusvæðinu samþykki 130 milljarða neyðarlán til Grikkja. Fastlega er reiknað með því sú lánveiting verði veitt í vikunni.

Flest hefur farið á annan veg en efnahagsáætlun Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerðu upphaflega ráð fyrir árið 2010. Gríska hagkerfið átti að dragast saman um 3% á liðnu ári – en þess í stað nam samdrátturinn 6%. Það hefði ekki átt að koma á óvart. Harkalegur niðurskurður í ríkisbúskapnum samhliða þeirra staðreynd að Grikkland getur ekki fellt hjá sér gengið til að örva vöxt í útflutningi hefur hrundið af stað sjálfsuppfyllandi spíral: hagkerfið dregst enn meira saman og skuldirnar aukast upp úr öllu valdi.

Árið 2008 námu heildarskuldir gríska ríkisins 260 milljörðum evra. Þrátt fyrir tvö neyðarlán að andvirði samtals 240 milljarða evra – hið fyrra 110 milljarðar og nú hið síðara sem nemur 130 milljörðum – og 100 milljarða evra afskriftir á skuldum gríska ríkisins þá hefur skuldastaðan hins vegar aðeins versnað. Gangi allt eftir eiga skuldir gríska ríkisins, sem hlutfall af landsframleiðslu, að minnka úr 165% í 120% á næstu átta árum. Fáir hagfræðingar eru hins vegar svo bjarstýnir að telja sennilegt að Grikkjum takist að ná því markmiði fyrir 2020 án þess að til komi frekari afskriftir, hugsanlega fleiri neyðarlán – og enn meira aðhald í ríkisrekstri.

Brotthvarf Grikkja af evrusvæðinu er nú rætt með opinskárri hætti en oft áður – ekki síst á meðal ráðamann í Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi og Finnlandi – í ljósi þess að margir óttast að nýtt neyðarlán til Grikkja sé aðeins tímabundinn gálgafrestur. Frekari fjárhagsaðstoðar verði þörf fyrir Grikki síðar meir eigi að afstýra greiðsluþroti.

Óttinn við greiðsluþrot

Brotthvarf Grikklands af evrusvæðinu og í kjölfarið greiðsluþrot myndi óhjákvæmilega hafa í för með sér harkalega aðlögun. Gengi hins nýja gjaldmiðils félli að öllum líkindum í verði um meira en 50%; verðbólga myndi mælast í tveggja stafa tölum; og hagkerfið færi í gegnum djúpt en snarpt samdráttarskeið.

Þegar horft er hins vegar til reynslu þeirra ríkja sem hafa farið í greiðsluþrot með tilheyrandi gengishruni gjaldmiðilsins þá hefur reynslan sýnt að hagvöxtur tekur fljótt kröftuglega við sér auk þess sem verðbólga lækkar hratt í kjölfarið. Á þessum tímapunkti virðast þó flestir ráðamenn í Grikklandi útiloka slíkan valkost – enda óttast þeir þær gríðarlegu efnahagshörmungar sem myndu ríða yfir landið til skemmri tíma. Það er þó ekki útilokað að sú afstaða breytist með nýrri ríkisstjórn eftir þingkosningarnar næstkomandi apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK