Gengi krónunnar leitar áfram niður

Reuters

Greiningardeild Arion banka telur að gengi krónunnar haldi áfram að lækka þrátt fyrir að ekki sé hægt að útiloka tímabundna styrkingu gengisins yfir sumarmánuðina. Gengi krónunnar hefur lækkað um 7% frá því í nóvember og rúm 5% frá áramótum.

„Ástæðan er fyrst og fremst sú að á næstu árum þarf þjóðin að standa straum af háum fjárhæðum til að endurgreiða erlend lán, en ekki er í augsýn endurfjármögnun, nema e.t.v. að hluta til. Allt bendir til þess að viðskiptaafgangurinn verði ekki nægur til að standa straum af þessum fyrirsjáanlegu afborgunum erlendra lána,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

 Greiningardeildin gerir ráð fyrir að afborganir af erlendum lánum verði um 57 milljarðar króna í ár þrátt fyrir að að gert sé ráð fyrir endurfjármögnun lánanna að hluta til. Er það svipuð fjárhæð og Seðlabankinn spáir því að verði viðskiptaafgangur í ár,  þ.e afgangur án innlánsstofnana í slitameðferð og án áhrifa Actavis

„Auk þess þarf að hafa í huga að þessi mælikvarði sýnir hlutina í of björtu ljósi þar sem ekki er tekið tillit til þeirra áhrifa sem eiga sér stað þegar innlánsstofnanir í slitameðferð greiða fjármuni til kröfuhafa, en slíkt hefur neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð,“ segir í Markaðspunktum.

Greiningardeildin segir að á meðan gjaldeyrishöft eru til staðar skipti höfuðmáli hvernig viðskiptajöfnuðurinn þróast. „Nokkur óvissa hefur verið um gjaldeyrissköpun þjóðarinnar þar sem áhrif föllnu bankanna sem og lyfjafyrirtækisins Actavis hafa skekkt myndina að ákveðnu leyti. Því hefur Seðlabankinn brugðið á það ráð að leiðrétta fyrir áhrifum innlánsstofnana í slitameðferð (og einnig Actavis sem vikið verður að hér síðar) svo að viðskiptajöfnuðurinn endurspegli betur undirliggjandi gjaldeyrissköpun þjóðarinnar og þar með getu þjóðarbúsins til að endurgreiða skuldir,“ segir í Markaðspunktum.

Greiningardeildin bendir á  að einhverjir muni tiltaka það að gjaldeyrisforði Seðlabankans hafi aldrei verið meiri og geta bankans til að styðja við afnámsferlið og gengi krónunnar því umtalsvert.

„Þrátt fyrir að laust erlent fé Seðlabankans sé vissulega mikið er það alfarið tekið að láni. Ef erlendum eignum og skuldum ríkissjóðs er bætt við kemur í ljós að Seðlabankinn og ríkið skuldar tugi milljarða króna umfram erlendar eignir.

Gjaldeyrisforðinn verður því tæplega notaður og þá aðeins til skamms tíma og í litlum mæli. Ef Seðlabankinn mun reyna að styðja við krónuna með því að ganga á forðann í miklum mæli mun það aðeins fresta gengisveikingu krónunnar tímabundið og tefla fjármögnun forðans í hættu,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK