Smáfyrirtækin skila mestu

Thomas Möller.
Thomas Möller. Ernir Eyjólfsson

Thomas Möller, framkvæmdastjóri Rýmis Ofnasmiðjunnar, telur að stjórnmálamenn á Íslandi gefi litlum og meðalstórum fyrirtækjum ekki nægilega mikinn gaum. Þar verði þó til megnið af nýjum störfum hverju sinni og þar sé ódýrast að fjárfesta í nýjum störfum. „Stundum má hugsa smátt, það skilar stundum mestu til lengri tíma litið,“ sagði Thomas sem sjálfur hefur komið að rekstri og stofnun nokkurra smáfyrirtækja.

Thomas sagði að ekki átti allir sig á því að lítil og meðalstór fyrirtæki eru stærsti atvinnuveitandi á Íslandi og þau gegni þess vegna lykilhlutverki í atvinnulífinu. Þannig eru lítil og meðalstór fyrirtæki, fyrirtæki með færri en 250 starfsmenn, um 99% fyrirtækja í landinu. Lætur nærri að þau séu um 27 þúsund með um 90 þúsund starfsmenn. Það sem gæti fallið undir að vera örfyrirtæki, fyrirtæki með undir 10 starfsmönnum, eru 90% allra fyrirtækja. Samkvæmt athugunum Thomasar vinna 55% fólks í ör- og smáfyrirtækjum á Íslandi. 

Vantar aðgang að fjármagni

„Öll fyrirtæki voru einu sinni smáfyrirtæki,“ segir Thomas og bætir við: „Staðreyndin er sú að stórfyrirtækin eiga auðvelt með að afla sér aðgangs að fjármagni en smáfyrirtækin hafa það ekki og verða jafnvel að treysta á yfirdráttarlán eða persónulegar ábyrgðir eigenda. 

Frumkvöðlahugsunarháttur er mjög sterkur hér á landi og það er eitt af því sem einkennir okkur. Þetta finnst til dæmis miklu síður hjá Dönum sem eru síður tilbúnir að taka áhættu. Sérstaklega finnst mér þessi frumkvöðlahugsunarháttur sterkur úti á landi. Þetta er jákvætt og við eigum að vera duglegri að nýta okkur þetta.“  

Auðvelt að stofna fyrirtæki

Að sögn Thomasar er  fremur auðvelt að stofna fyrirtæki hér á landi, það er skilyrði að hafa öruggt og nákvæmt bókhald og að sjálfsögðu vsk-númer. Þetta eigi við í flestum greinum nema matvælageiranum og hótel- og veitingahúsarekstri. Eftirlitskerfið sé hæfilegt en hins vegar ljóst að skattakerfið sé ekki að skila stuðningi til smáu fyrirtækjanna. Litlir sem engir skattalegir hvatar eru til fjárfestinga í atvinnurekstri og benti Thomas á að minni og meðalstór fyrirtæki hefðu haft of lítinn hvata til fjárfestinga og atvinnusköpunar og það  kæmi sér illa eins og atvinnuástandið er á landinu í dag.

„Það þarf að leggja meiri alúð við smærri og meðalstór fyrirtæki.  Sem dæmi má nefna að eitt nýtt starf sem skapast hjá fjórða hverju smáfyrirtæki skapar rúmlega 6.500 fjölbreytt störf. Núverandi atvinnuleysi væri hægt að minnka verulega ef þessi smáfyrirtækin myndu vaxa sem nemur aðeins einum starfsmanni.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK