Gjaldeyrishöftin komin til að vera

Greiningardeild Arion banka segir að gjaldeyrishöftin séu komin til að vera enda sé deginum ljósara að engin leið er að afnema þau nema með verulegri veikingu krónunnar. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildarinnar í dag þar sem fjallað er um lög sem samþykkt voru á Alþingi í nótt um breytingar á lögum um gjaldeyrishöftin.

„Ljóst er að núverandi áætlun um afnám hafta er ótrúverðug og framkvæmd Seðlabankans hefur gert lítið annað en að undirstrika það. Það má því spyrja sig hvort og þá hvað sé til ráða? Fyrirsjáanlegt er að ekki er hægt að afnema höftin án verulegrar veikingar sem fæli í sér mikla kaupmáttarskerðingu og eignabruna, a.m.k. til skamms tíma.

Tími kominn til að hugsa út fyrir boxið

Í öllu falli virðist morgunljóst að lagasetning er eina stjórntækið sem Seðlabankinn og ríkið telja sig hafa tiltæk til að hafa áhrif á gjaldeyrismarkaðinn og tempra fall krónunnar. Hafi einhvern tímann verið tími til að hugsa út fyrir boxið varðandi gjaldeyrismál þjóðarinnar, þá er sá tími runninn upp,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka þar sem stjórnvöld og Seðlabanki Íslands eru gagnrýnd harkalega.

Reynt að klæða inngrip í búning

„Lagasetningin og bakgrunnur hennar sýnir svo ekki verður um villst að íslenska þjóðin stendur ekki frammi fyrir neinum góðum kosti þegar kemur að útfærslu gjaldeyrislaganna. Valið stendur alltaf á milli fárra slæmra kosta.

Frá áramótum hefur íslenska krónan lækkað stöðugt á móti helstu gjaldmiðlum. Seðlabankinn reyndi á þriðjudag í síðustu viku að stemma stigu við útflæði gjaldeyris með inngripum á gjaldeyrismarkaðinn.

Í tilkynningu reyndi Seðlabankinn að klæða inngripin í þann búning að tímabundið útstreymi hefði valdið veikingu krónunnar. Ákvörðun Alþingis nú staðfestir einfaldlega það sem greiningardeild hefur margoft bent á, þ.e. að viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins dugir ekki til að mæta því mikla útstreymi gjaldeyris sem fram fer í gegnum fjármagnsjöfnuðinn og allt tal um tímabundið útflæði er einfaldlega ótrúverðugt.

Þrátt fyrir hábjargræðistíma í sjávarútvegi, raungengi krónu sem er langt undir sögulegu meðaltali og ferðamannatíma framundan líta stjórnvöld svo á að þau séu nauðbeygð til að grípa til lagasetningar,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Fráleitt að Seðlabankinn geti nýtt skuldsettan gjaldeyrisforða til að mæta afborgunum

Greiningardeildin vísar í umfjöllun sinni til sjö milljarða króna afborgunar á fimmtudaginn af HFF 14, íbúðabréfaflokks sem í dag er að langmestu leyti í eigu útlendinga.

„Miðað við það litla flæði sem virðist vera af gjaldeyri inn í landið hefði gjalddaginn valdið áframhaldandi lækkun á krónunni, nema Seðlabankinn hefði gripið í taumana og selt gjaldeyri. Það er hætt við að sú aðgerð hefði reynst dýrkeypt tilraun. Enda fráleitt að Seðlabankinn geti nýtt skuldsettan gjaldeyrisforða til að mæta þeim afborgunum sem framundan eru,“ segir í Markaðspunktum Arion banka.

Full ástæða til að hafa áhyggjur af gengi krónunnar

Lengi hefur legið fyrir að erlendir kröfuhafar föllnu bankanna fá nettó á bilinu 500-550 milljarða króna innlendra eigna í sínar hendur. Afnám undanþágu skilanefndanna frá gjaldeyrishöftunum kemur því alls ekki á óvart þótt lagasetningin sé í seinna lagi enda hefur ein skilanefnd nú þegar greitt út krónur, segir í Markaðspunktum.

„Til skamms tíma gæti herðing gjaldeyrishaftanna styrkt krónuna. Horft lengra fram á veginn er hins vegar full ástæða til þess að hafa áhyggjur af gengi krónunnar. Spár um afgang af viðskiptajöfnuði hafa farið minnkandi, svo vægt sé til orða tekið, og útlit er fyrir aukinn innflutning á sama tíma og útflutningi eru skorður settar þegar kemur að áframhaldandi vexti sökum framboðstakmarkanna.

Aðgerðin í gær breytir engu um þann langtímavanda sem þjóðargjaldmiðilinn stendur frammi fyrir en útlit er fyrir umtalsverða veikingu krónunnar þar sem viðskiptajöfnuðurinn mun ekki nægja fyrir afborgunum af erlendum lánum, samkvæmt greiningardeild Arion banka.

„Að öllu þessu sögðu er tvennt ljóst; engin leið er að afnema höftin að fullu og krónan mun eiga undir högg að sækja á næstu árum, nema erlendir aðilar fái óvæntan áhuga á því að endurfjármagna erlendar skuldir landsins.

Það má velta því fyrir sér hver viðbrögð Seðlabankans og hins opinbera verða ef frekari veiking gerir vart við sig. Munu gjaldeyrishöftin verða hert enn frekar með takmörkunum á innflutningi? Verður skilaskyldu skipt út fyrir skiptiskyldu á gjaldeyri? Eða mun Seðlabankinn kannski reyna að berjast við fallandi gengi krónunnar og tilheyrandi verðbólgu með stýrivöxtum til að reyna að halda fjármagninu í landinu og jafnframt að keyra umsvif hagkerfisins niður? Eða mun Seðlabankinn e.t.v. beita sér enn frekar með inngripum á gjaldeyrismarkaði?“ segir í Markaðspunktum.

Ákvörðunin virðist handahófskennd og óyfirveguð

Greiningardeildin segir að Alþingi og Seðlabanki hafi litið svo á að þau hafi staðið frammi fyrir tveimur vondum kostum. Annað hvort að herða á höftunum og loka fyrir útstreymi gjaldeyris vegna samningsbundinna afborgana eða hins vegar að halda lögunum óbreyttum með tilheyrandi gengisfalli og verðbólguskoti. Fyrri kosturinn varð fyrir valinu.

„Þessi ákvörðun grefur eðlilega undan því trausti sem erlendir fjárfestar hafa á íslenskum stjórnvöldum. Bæði kemur til að ákvarðanataka virðist handahófskennd og óyfirveguð og svo hitt að staðan sem upp var komin gaf til kynna að stjórnvöld hafi lesið gjaldeyrisstreymi inn og út úr landinu kolvitlaust“ segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK