Karen Millen yfirheyrð vegna Kaupþings

Karen Millen
Karen Millen

Breski tískuhönnuðurinn Karen Millen er meðal þeirra sem voru yfirheyrð í síðustu viku af starfsmönnum sérstaks saksóknara vegna rannsóknar embættisins á Kaupþingi. Fyrrverandi eiginmaður hennar, Kevin Stanford, sem sakað hefur stjórnendur bankans um markaðsmisnotkun, var ekki yfirheyrður.

Millen er talin hafa tengst markaðsmisnotkun stjórnenda Kaupþings, ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum Kevin Stanford sem nú rekur tískuverslanakeðjuna All Saints.

Í frétt á vefsíðu breska blaðsins The Guardian segir að tengsl Millen hafi líklega verið óafvitandi.

Þar segir að stjórnendur Kaupþings hafi reynt að hafa áhrif á skuldatryggingarálag bankans, sem hafði hækkað mikið, með því að lána nokkrum af stærstu viðskiptavinum sínum fé til kaupa á skuldabréfum tengdum skuldabréfaálagi Kaupþings af Deutsche Bank, einum stærsta banka í heimi. 

Rannsóknin er sögð beinast að því hvort stjórnendur Kaupþings hafi á þennan hátt stjórnað skuldatryggingarálagi bankans og þannig gefið ranga mynd af stöððu hans.

Margar af fjárfestingum Karenar Millen tengdust viðskiptum Stanfords löngu eftir að leiðir þeirra skildu árið 2001. Stanford varð stór viðskiptavinur Kaupþings árið 2008 auk þess að vera fjórði stærsti hluthafi bankans. Hann var ekki yfirheyrður af embætti sérstaks saksóknara, þrátt fyrir að hafa sakað fyrrum stjórnendur bankans um markaðsmisnotkun.

Hann stendur nú í málaferlum við þrotabú gamla Kaupþings.

Auk Millen yfirheyrði embætti sérstaks saksóknara fyrrum starfsmenn Deutsche Bank, sem sagðir eru hafa veitt Kaupþingi ráðgjöf í viðskiptunum.

Frétt The Guardian

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir