Næðir um Murdoch

Feðgarnir James og Rupert Murdoch
Feðgarnir James og Rupert Murdoch AP

James Murdoch, sonur Ruperts Murdochs, hefur sagt sig frá stjórnunarstörfum að undanförnu en hann reynir nú að minnka tengsl sín við dagblaðaútgáfu fjölmiðlaveldis fjölskyldunnar, News Corp., í Bretlandi í kjölfar símahlerunarmáls sem tengist blöðum í eigu News Corp.

James Murdoch hætti á miðvikudag í stjórn Times Newspapers Holdings, sem faðir hans stofnaði til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði Times eftir að hann keypti útgáfuna árið 1981.

Hann hefur einnig sagt af sér sem framkvæmdastjóri Newscorp Investments og News International Publishers Limited, sem tilheyra útgáfu News í Bretlandi, samkvæmt frétt Bloomberg.

Murdoch hefur látið af störfum víða í kjölfar þess að rannsóknarnefnd breska þingsins skoðar hlut hans í símahlerunarmálinu sem varð til þess að News hætti útgáfu vikublaðsins News of the World síðasta sumar.

Hinn 16. mars sl. tilkynnti Sotheby's-uppboðshúsið að Murdoch hefði hætt í stjórn fyrirtækisins. Hann hætti í stjórn lyfjafyrirtækisins  GlaxoSmithKline í janúar og hætti sem stjórnarformaður News International, sem gefur út Times í Bretlandi, í síðasta mánuði.

News Corp., sem er höfuðstöðvar í New York, hefur tilkynnt að James Murdoch muni einbeita sér að sínu aðalstarfi á næstunni, það er aðstoðarframkvæmdastjóri sjónvarpshluta fjölmiðlaveldisins.

En það er ekki nóg því fjárfestar hafa krafist þess að hann segi af sér sem stjórnarformaður BSkyB og hætti í stjórn News Corp. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir