Óttast að 20 þúsund störf glatist

Forstjóri UBS, Sergio Ermotti.
Forstjóri UBS, Sergio Ermotti. Reuters

Um tuttugu þúsund störf gætu glatast í fjármálakerfi Sviss á næstu árum vegna „efnahagsstríðsins“ sem Evrópusambandið og Bandaríkin heyja gegn helstu bönkum landsins. Þetta segir forstjóri UBS, Sergio Ermotti, í viðtali við SonntagsZeitung.

Ermotti segir að árásirnar hafi staðið yfir frá árinu 2008 og hagstætt skattaumhverfi í Sviss sé einungis hluti skýringarinnar. Tilgangurinn með stríðinu sé að veikja starfsemi tveggja stórra svissneskra banka, UBS og Credit Suisse, sem hafi náð góðum árangri á alþjóðlegum vettvangi.

Þann 12. apríl sl. hófst rannsókn á vegum franskra saksóknara á því hvort UBS hafi aðstoðað franska viðskiptavini sína við að komast hjá því að greiða skatta. UBS hefur lýst því yfir að bankinn vinni af heilum hug með frönskum yfirvöldum að rannsókninni.

Í Bandaríkjunum eru ellefu svissneskir bankar nú í rannsókn vegna gruns um að þeir hafi hvatt viðskiptavini sína til þess að koma eignum sínum fyrir í svissnesku skattaskjóli.

„Ég geri ráð fyrir að svissneska fjármálakerfið muni tapa um 20% allra starfa í geiranum á næstu árum, um 20 þúsund störfum,“ segir Ermotti í viðtalinu.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir