Vaxtakostnaðurinn svipaður og hjá öðrum

Reuters

Ávöxtunarkrafan í 1 milljarðs Bandaríkjadala skuldabréfaútboði ríkissjóðs er 6% og segir greining Íslandsbanka að þótt vaxtakostnaðurinn sé töluverður eru lánskjörin ekki ósvipuð kjörum annarra landa sem eru í svipuðum aðstæðum og Ísland.

Fjórföld umframeftirspurn var í útboði ríkissjóðs á bréfum í Bandaríkjadölum sem haldið var í gær. Skuldabréfin eru gefin út til 10 ára og bera fasta vexti. Niðurstaða útboðsins var að fjárfestar keyptu bréf fyrir 1 milljarð dala, um 124 milljarða króna.

Ávöxtunarkrafan er 6%, en upphaflega var miðað við u.þ.b. 6,38% kröfu.  Jafngildir niðurstaðan u.þ.b. 4,0% álagi ofan á vexti 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa.

Litháen og Lettland greiða 3,25% - 3,50% álag á langtíma skuldabréf sín í evrum miðað við sambærilega áhættulausa vexti, Króatía við 4,85% álag en stærri lönd á borð við Tyrkland við 3,00% álag, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Hafa trú á íslenska hagkerfinu

„Þá má nefna að evruríki í vandræðum búa mörg við hátt álag á skuldabréf sín. Til að mynda er álag á 10 ára skuldabréf Ítalíu nú 3,8%, fyrir Spán er álagið 4,0% og fyrir Írland 5,5%. Mikill áhugi erlendra fjárfesta er einnig til marks um trú þeirra á jákvæðum lengri tíma horfum fyrir íslenska hagkerfið þrátt fyrir þá óvissu sem nú er fyrir hendi, t.d. vegna gjaldeyrishafta,“ segir í Morgunkorni.

Skuldabréfaútgáfan kemur í kjölfar þriggja daga kynningarferðar í Bandaríkjunum og Evrópu en kaupendurnir eru fagfjárfestar í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar. Mun meiri eftirspurn var í útboðinu nú heldur en í sambærilegu útboði sem haldið var í júní í fyrra en þá gaf ríkið út fyrir 1 milljarða dala  líkt og nú. Það skuldabréf er til 5 ára og nam eftirspurnin í því útboði 2 milljörðum dala, samkvæmt Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Ætlað að endurfjármagna skuldsettan gjaldeyrisforða

Útgáfunni nú er ætlað að endurfjármagna skuldsettan gjaldeyrisforða Seðlabankans, og raunar ekki síður mynda vísi að vaxtaferli í erlendri mynt fyrir lántökur ríkissjóðs, en slíkur vaxtaferill myndar grunn fyrir lánskjör annarra íslenskra skuldara í erlendum gjaldeyri.

„Hvað fyrrnefnda tilganginn varðar er gjaldeyrisforði Seðlabankans nánast að fullu skuldsettur, og hefur fram til þessa verið að langmestu leyti á gjalddaga fyrir lok áratugarins. Með útgáfunni nú er lengt töluvert í endurgreiðsluferli forðans, og minnkar hættan á að ríkið þurfi að kaupa gjaldeyri í stórum stíl innanlands til að standa við gjalddaga gjaldeyrislána á næstu árum að sama skapi.

Á móti eykst fjármögnunarkostnaður vegna gjaldeyrisforðans talsvert. Sem dæmi má nefna að gjaldeyrislán Norðurlandanna í tengslum við áætlun AGS og stjórnvalda eru á fljótandi vöxtum með 2,75% álagi á LIBOR-vexti. Vaxtabyrði þessara lána, sem eru í evrum, er nú u.þ.b. 3,25%, en hafa ber í huga að LIBOR-vextir eru nú í algjöru lágmarki og munu hækka með tíð og tíma. Af hverjum ma. evra þeirra lána þarf ríkið því að greiða u.þ.b. 5,3 ma.kr. í vexti á ári. Af nýja skuldabréfinu þarf ríkið hins vegar að greiða 60 m. Bandaríkjadala, jafnvirði 7,4 ma.kr., á ári hverju, þótt lánsfjárhæðin jafngildi aðeins 762 m. evra. Á móti fæst raunar lítilsháttar ávöxtun af gjaldeyrisforðanum, og má gera ráð fyrir að hún sé í grennd við skemmri LIBOR-vexti, sem nú eru á bilinu 0,2% - 0,9%,“ segir í Morgunkorni.

Hvað síðarnefnda tilganginn varðar er það afar mikilvægt að hafa grunn fyrir vaxtakjör íslenskra skuldara í erlendri mynt, segir í Morgunkorni, en eftir útgáfuna nú kemur til með að liggja fyrir viðmið fyrir bæði 5 ára og 10 ára vexti í Bandaríkjadal.

„Orkufyrirtæki og aðrir stærri skuldarar sem þurfa á aðgangi að erlendu lánsfé að halda geta svo vonandi siglt í kjölfarið og sótt endurfjármögnun eða nýtt fjármagn til fjárfestinga. Talsvert hefur verið rætt um það undanfarið að þjóðarbúið hafi takmarkað bolmagn til að útvega gjaldeyri til greiðslu á öllum erlendum lánum sem falla á gjalddaga næstu árin, og því er mikilvægt að skapa svigrúm til endurfjármögnunar a.m.k. hluta þeirra,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir