Samruninn mælist vel fyrir

Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri Watson
Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri Watson mbl.is/Golli

Nýverið voru tilkynnt kaup bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson á Actavis og hefur markaðurinn tekið fréttunum vel en verð hlutabréfa Watson hefur hækkað um 25% frá því fréttir af mögulegum samruna spurðust út um 20. mars sl. Sigurður Óli Ólafsson er aðstoðarforstjóri Watson en hann er fyrrverandi forstjóri Actavis.

Watson keypti Actavis á 4,25 milljarða evra, um 700 milljarða króna í lok apríl. Að auki eru um 250 milljónir evra skilyrtar og háðar afkomu Actavis á þessu ári. Sigurður Óli kynnti kaupin fyrir starfsmönnum Actavis á miðvikudag en hann starfaði hjá Actavis áður um sjö ára skeið og þekkir því starfsemi fyrirtækisins vel.

Watson er skráð í kauphöllinni í New York og er eignaraðildin mjög dreifð enda hefur félagið lengi verið skráð á hlutabréfamarkað. Í fréttum erlendra fjölmiðla hefur mikið verið fjallað um samrunann sem er með þeim stærri á samheitalyfjamarkaði í langan tíma. Almennt hefur samrunanum verið vel tekið af greiningardeildum sem fylgjast með Watson og fjárfestar eru greinilega sama sinnis ef marka má verðhækkun hlutabréfa Watson að undanförnu. Verð hlutabréfa Watson er nú um 75 Bandaríkjadalir á hlut en fór hæst í 77,73 dali hinn 30. apríl sl. Kaupin á Actavis voru tilkynnt hinn 25. apríl. Hinn 24. janúar voru hlutabréf Watson skráð á 55 dali og hafa bréfin því hækkað um 36% frá því í janúar.

 Komið undir starfsmönnum hvernig tekst til

„Markaðurinn tekur þessu vel en síðan er það undir okkur starfsmönnunum komið að sameiningin gangi vel. Það er ekki nóg að markaðurinn gefi okkur fyrstu einkunn fyrir samrunann. Nú þarf að sýna fram á að við stöndum undir þessari einkunn,“ segir Sigurður Óli.

Sigurður Óli, sem er menntaður lyfjafræðingur, flutti árið 1998 til Bretlands ásamt eiginkonu sinni, Björgu Harðardóttur  og tveimur börnum Elísabetu og Oddi sem þá voru fjögurra og átta ára,  er hann hóf störf hjá lyfjafyrirtækinu Pfizer. Hann segir að þetta hafi verið frábær skóli að fá vinnu hjá stórfyrirtæki eins og Pfizer og segist ráðleggja ungu fólki sem fær slík tækifæri að láta slag standa. Reynslan sem hann hafi fengið hjá Pfizer sé ómetanleg.

Árið 2001 flutti fjölskyldan sig um set til Bandaríkjanna þar sem Sigurður Óli  starfaði áfram hjá Pfizer allt til ársloka 2003. Sigurður Óli stýrði útrás Actavis í Bandaríkjunum frá sama tíma allt til ársins 2006 er fjölskyldan flutti til Íslands á ný þar sem  Sigurður Óli tók við starfi aðstoðarforstjóra Actavis. Árið 2008, þegar Róbert Wessman lét af starfi forstjóra Actavis, tók Sigurður við stjórnartaumunum hjá fyrirtækinu.

En árið 2010 var kominn ferðahugur í fjölskylduna á ný. Hann segir að þau hafi ákveðið að flytja aftur til Bandaríkjanna, ekki  síst vegna þrýstings frá börnunum sem höfðu áhuga á að halda áfram námi þar. Því hafi hann ákveðið að hætta hjá Actavis og taka við aðstoðarforstjórastarfi Watson. Fjölskyldan býr í Connecticut og er Björg í meistaranámi við Rhode Island School of Design en sonur þeirra nemur ljósmyndun í Kaliforníu og dóttir þeirra er að ljúka menntaskóla.

Sex til sjö mánaða ferli

Það hefur lengi verið á stefnuskrá forstjóra Watson, Paul Bisaro, að leita eftir sameiningu við annað samheitalyfjafyrirtæki og Sigurður Óli þekkir eins og áður sagði vel til hjá Actavis. Hann segir að þetta hafi verið rétti tíminn fyrir Watson til að stíga þetta skref en því sé hins vegar alltaf þannig farið ef kaupa á fyrirtæki þá þurfi tvo til, kaupanda og seljanda. „Ferlið sjálft byrjaði fyrir sex eða sjö mánuðum en við vissum það ekki fyrr en tveimur dögum áður en skrifað var undir að samningar myndu takast. Þetta er mjög flókið ferli því það þurfti ekki bara að semja við hluthafa heldur einnig stóran banka, Deutche Bank, sem átti mikið undir. Þannig að þetta voru flóknar samningaviðræður en ég held að það hafi verið vilji allra að ná samningi.“

Deutsche Bank hefur þurft að afskrifa háar fjárhæðir vegna Actavis, líkt og fram hefur komið í afkomutilkynningum bankans. 257 milljónir evra, 43 milljarða króna, vegna Actavis á fyrsta ársfjórðungi og 407 milljónir evra, 68 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en bankinn lánaði félagi í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar 4,7 milljarða evra þegar hann var bakhjarl Björgólfs Thors er hann keypti aðra hluthafa út úr Actavis árið 2007 með skuldsettri yfirtöku. Langstærsti hluti þeirra fjárhæðar sem Watson greiðir fyrir Actavis rennur til lánardrottna Actavis og Björgólfs Thors. Þar er Deutsche Bank stærstur en Landsbankinn, Straumur og Glitnir áttu einnig verulegra hagsmuna að gæta, segir í pistli á vef Björgólfs Thors.

Sérstök tilfinning að snúa aftur

Að sögn Sigurðar Óla var það mjög sérstök tilfinning að koma aftur til Actavis í vikunni en hann hafði ekki komið á skrifstofur fyrirtækisins á Íslandi frá því hann lét af störfum sumarið 2010. „Ég hitti fjölmarga gamla vinnufélaga og ég held að ég hafi ekki faðmað jafn marga eins og þennan morgun hér hjá Actavis þau tvö ár sem liðin eru frá því ég flutti út til Bandaríkjanna á ný. Þetta var góð tilfinning enda gott fólk sem vinnur fyrir Actavis. Ég vissi náttúrlega þegar hugmyndin um kaupin kom upp hvað Actavis er gott fyrirtæki en það er eitthvað sem margir þeirra sem við höfum kynnt samrunann fyrir vissu ekki enda Actavis ekki á markaði og því ekki miklar upplýsingar fyrirliggjandi um rekstur þess og starfsemi,“ segir Sigurður Óli.

Hann segir að það sé búið að umbylta Actavis á síðustu fimm árum og markaðurinn hafi hreinlega ekki gert sér grein fyrir því hversu vel það hefur gengið. „Fyrirtækið er miklu betur samþætt heldur en menn gerðu sér almennt fyrir enda hefur verið unnið að því að selja það allt frá árslokum 2007 þrátt fyrir að það hafi ekki opinberlega verið til sölu. Það vissu það allir að það yrði einhver endir og finna þyrfti Actavis gott heimili. Það er líka mun auðveldara að sameina tvö vaxandi fyrirtæki sem ekki eru í vanda heldur en þegar sameiningin snýst um eitt vel rekið fyrirtæki og annað sem er verr rekið líkt og stundum er.“

17 þúsund starfsmenn

Höfuðstöðvar Watson eru í New Jersey í Bandaríkjunum en 85% af veltu þess eru í Bandaríkjunum og 15% á öðrum mörkuðum, svo sem Kanada, Bretlandi, Þýskalandi og Ástralíu. Starfsmenn Watson eru 7 þúsund talsins og starfsmenn Actavis eru 10 þúsund talsins þannig að alls munu 17 þúsund manns starfa hjá sameinuðu fyrirtæki.

Watson hefur ekki  starfað í Austur-Evrópu og Suður-Evrópu og segir Sigurður að samlegðaráhrifin af sameiningu Watson og Actavis séu augljós enda Actavis með sterka stöðu á þessum mörkuðum.

„Austur-Evrópa er mjög sterkur markaður og ört vaxandi,“ segir Sigurður. „Með sameiningunni verður til mjög sterkt samheitalyfjafyrirtæki sem er það þriðja stærsta í heiminum í dag á eftir Teva og Sandoz. Í dag er Watson fjórða stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims og Actavis það sjötta stærsta.“

44 milljarðar taflna á ári hverju

Sameiginlegt fyrirtæki mun reka yfir þrjátíu lyfjaverksmiðjur úti um allan heim sem framleiða yfir 44 milljarða taflna á ári og saman framleiða þau yfir 1.300 mismunandi lyf. „Það er í raun þetta tækifæri, að vaxa enn frekar, sem gerir sameiningu við Actavis að spennandi kosti. Því samheitalyfjamarkaðurinn vex mjög hratt nánast alls staðar í heiminum. Stjórnvöld víðast hvar  í heiminum eru að leita leiða til að lækka lyfjakostnað sinn og ein auðveldasta leiðin til þess er að nota meira af samheitalyfjum. Í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi eru 70-80% af öllum lyfjum sem fara út úr lyfjaverslunum samheitalyf. En ef þú ferð til Grikklands aftur á móti, þar sem virkilega þarf að spara í ríkisrekstri, er einungis 15% þeirra lyfja sem fara út úr apótekunum samheitalyf. Þetta þýðir að lyfjakostnaður er mjög hár þar í landi,“ segir Sigurður Óli.

Yfirtakan á Actavis er skuldsett en Watson tekur ný lán fyrir kaupunum og yfirtekur ekki skuldir Actavis. Að sögn Sigurðar eru nýju lánin á afar hagstæðum kjörum enda er fyrirtækið meðal þeirra sem alþjóðleg matsfyrirtæki leggja mat á og nýtur trausts meðal matsfyrirtækjanna. Fitch setti Watson á athugunarlista með neikvæðum horfum eftir að kaupin á Actavis voru tilkynnt en að sögn Sigurðar Óla er það mjög eðlilegt enda miklir peningar teknir að láni.

Skuldsett yfirtaka byggist á því að fjárstreymið frá þessari sameiningu er óhemjumikið en velta sameinaðs fyrirtækis verður væntanlega um átta milljarðar Bandaríkjadala, rúmir eitt þúsund milljarðar króna, í ár, segir Sigurður Óli. „Við reiknum með því að skuldir okkar muni minnka mjög hratt og í árslok 2013 miðum við að því þær verði þrefaldur rekstrarhagnaður (EBIDTA) og í lok árs 2014 verði skuldirnar svipaðar og tvöföld EBITDA fyrirtækisins,“ segir Sigurður Óli.

Höfuðstöðvar væntanlega í Bandaríkjunum

Gert er ráð fyrir því að það liggi fyrir á fjórða ársfjórðungi hvort samkeppnisyfirvöld í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu samþykki samruna Watson og Actavis. Þangað til verður rekstur þeirra algjörlega aðskilinn. Eðlilegt sé að höfuðstöðvar þess verði í Bandaríkjunum enda Watson skráð í kauphöllinni í New York. Þangað til verður unnið að því að ákveða hvert stjórnendateymi sameinaðs fyrirtæki verður, hvar aðalskrifstofa þess verði í Evrópu og hvað sameinað fyrirtæki eigi að heita, segir Sigurður Óli. „Undirbúningsvinnan heldur áfram en engar ákvarðanir eða tilkynningar þar að lútandi verða gefnar upp fyrr en samþykki yfirvalda liggur fyrir.“

Actavis flutti höfuðstöðvar sínar frá Íslandi til Sviss í fyrra en að sögn Sigurðar Óla er ljóst að sú skrifstofa muni gegna lykilhlutverki hjá hinu nýja fyrirtæki. Verið sé að skoða ýmsa möguleika þar að lútandi. Eins hvað varðar fjölda verksmiðja en eins og staðan í dag þá eru þær allar í fullri starfsemi en í framtíðinni verði jafnvel hægt að breyta starfsemi þeirra á einhvern hátt, það er að einfalda rekstur.

Breytingar á samheitalyfjamarkaði

Sigurður Óli segir að á sama tíma og mikil áhersla sé lögð á aukna notkun samheitalyfja sé sá markaður að breytast. Samheitalyfjafyrirtæki horfi nú á markaðssetningu flókinna líftæknilyfja og krabbameinslyf. Eitt þeirra líftæknilyfja sem Watson er með í þróun er notað við tæknifrjóvganir og er gríðarlega dýrt. „Vonir standi til að einkaleyfið fyrir það renni út árið 2015 eða 2016 en þróun á svona lyfi kostar sennilega á bilinu 50-70 milljónir Bandaríkjadala, 6,3-8,8 milljarðar króna. Smærri fyrirtækja ráða ekki við þessa þróun og sameinað fyrirtæki gefur okkur tækifæri á að fara inn á þennan markað fyrir líftæknilyf sem einkaleyfi fyrir rennur út á komandi árum. Meðferð sjúklinga sem þurfa á slíkum líftæknifrumlyfjum kostar fleiri fleiri milljónir króna. Það er í rauninni næsta skeið á samheitalyfjamarkaði að hefja framleiðslu líftæknilyfja en það er einungis á færi stærstu samheitalyfjafyrirtækjanna.“

Sigurður Óli segir að svipað sé uppi á teningnum varðandi líftækni-krabbameinslyf sem eru enn háð einkaleyfi en einkaleyfið fyrir þau rennur út í mörgum tilvikum eftir nokkur ár. Þróunarkostnaður við að framleiða slík samheitalyf nemur um 200 milljónum Bandaríkjadala. Fyrirtæki þurfa að fara í miklar rannsóknir áður en sótt er um heimild til að framleiða slík lyf. Svo sem öryggi þeirra og virkni enda mikið í húfi. Hann segir að miklar kröfur séu gerðar af lyfjaeftirliti Bandaríkjanna sem og Evrópusambandsins áður en slík lyf eru samþykkt líkt og önnur flókin lyf.

Lyfjaverksmiðja Actavis á Íslandi var stækkuð um helming fyrir um ári síðan og gengur starfsemi hennar vel, að sögn Sigurðar Óla. Þar eru framleidd all flest ný lyf fyrirtækisins enda þykir verksmiðjan góð og starfsfólki hennar gengur vel að fylgja tímalínum sem er nauðsynlegt svo allt gangi upp þegar markaðssetja á ný lyf. Verksmiðjan í Hafnarfirði er hönnuð með þarfir Bandaríkjamarkaðar í huga og hefur hlotið verðlaun fyrir framúrskarandi hönnun. Eftir stækkun verksmiðjunnar í byrjun árs 2011 er framleiðslugetan 1,5 milljarðar taflna.  

Medis, sem er dótturfyrirtæki Actavis og sér um sölu á lyfjum og lyfjahugviti til þriðja aðila, er einnig á Íslandi og verður áfram haldið að selja til þriðja aðila. „Sú höfuðstarfsemi sem er á Íslandi mun halda áfram,“ segir Sigurður Óli en alls starfa um sjö hundruð manns hjá Actavis á Íslandi.

Watson keypti Actavis nýverið
Watson keypti Actavis nýverið
Alls starfa 17 þúsund manns hjá Watson og Actavis
Alls starfa 17 þúsund manns hjá Watson og Actavis Af vef Actavis
44 milljarðar taflna eru framleiddir í verksmiðjum Watson og Actavis ...
44 milljarðar taflna eru framleiddir í verksmiðjum Watson og Actavis árlega Af vef Actavis
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir