Hagnaður Haga 2,3 milljarðar

mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hagnaður Haga á síðasta rekstrarári, 1. mars 2011 – 29. febrúar 2012, nam 2.344 milljónum króna eða 3,4% af veltu.

Vörusala tímabilsins nam 68.495 milljónum króna.  Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.183 milljónum króna.  Heildareignir samstæðunnar námu 23.405 milljónum króna í lok tímabilsins.

Handbært fé félagsins nam 2.149 milljónum króna í lok tímabilsins og eigið fé félagsins nam 6.221 milljón kr. í lok tímabilsins. Eiginfjárhlutfall félagsins var 26,6% í lok tímabilsins.

Vörusala félagsins nam 68.495 milljónum króna, samanborið við 66.700 milljónir króna fyrir sama tímabil árið áður. Á síðasta rekstrarári var verslanakeðjan 10-11 hluti af samstæðunni á fyrstu sex mánuðunum. Að teknu tilliti til brotthvarfs á rekstri 10-11 nemur söluaukning félagsins 5,3% milli ára.

Afkoma félagsins fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta nam 4.183 milljónum króna, samanborið við 4.384 milljónir króna árið áður, en 10-11 var hluti af rekstri félagsins til loka ágúst 2010.

Framlegð minnkar vegna hækkunar kostnaðarverðs og veikingar krónunnar

Framlegð félagsins hefur dregist saman á milli ára, m.a. vegna brotthvarfs 10-11 en aðallega vegna hækkandi kostnaðarverðs og veikingar krónunnar, segir í tilkynningu frá Högum.

Veruleg breyting er á fjármagnsliðum félagsins milli ára, sem skýrist bæði af einskiptisliðum og af hagstæðari lánakjörum. Fjármagnskostnaður tímabilsins var 54 milljónir króna samanborið við 1.704 milljónir á sama tíma í fyrra. Mestu munar um 515 milljón króna endurgreiðslu Arion banka vegna endurútreiknings bankans á gengistryggðum lánum félagsins sem greidd voru upp árið 2009.

Birgðir hafa aukist milli ára, eða um 10,3%, en það má m.a. rekja til verðhækkana þar sem hvert stykki er nú dýrara en áður.

Heildarskuldir samstæðunnar voru 17.184 milljónir króna, þar af eru langtímaskuldir 10.468 milljónir króna. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins í lok tímabilsins eru 8.423 milljónir króna eða 2,0 x EBITDA.

Innra virði hlutafjár í lok febrúar er 5,31 samanborið við 3,08 í lok síðasta rekstrarárs í febrúar 2011.

Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa mikil áhrif á rekstur félagsins

Í fréttatilkynningu kemur fram að horfur í rekstri Haga eru nokkuð góðar en rekstur félagsins var skv. áætlunum á nýliðnu ári. Áætlun ársins 2012/13 er sambærileg niðurstöðu nýliðins rekstrarárs en almenn óvissa ríkir enn á Íslandi og þar sem ráðstöfunartekjur íslenskra heimila hafa mikil áhrif á rekstur félagsins telja stjórnendur þess að vöxtur verði ekki mikill á rekstrarárinu sem nýlega er hafið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK