Sparnaður eykst ekki þrátt fyrir lífeyrissjóðina

Ásgeir Daníelsson
Ásgeir Daníelsson

Samhliða því að lífeyrissjóðirnir hafa vaxið á síðustu 30 árum hefur þjóðhagslegur sparnaður minnkað. Ásgeir Daníelsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, telur hugsanlegt að tekjutrygging, sem er hluti lífeyriskerfisins hér á landi, geti skýrt minni sparnað heimilanna.

Ásgeir hefur birt rannsóknarritgerð um áhrif lífeyrissjóða og húsnæðiseignar á sparnað og fjármálalega áhættu.

Eftir að verðtryggingu var komið á um 1980 fóru lífeyrissjóðirnir að styrkjast ár frá ári. Á þessum 30 árum hafa eignir sjóðanna farið úr um 10% af landsframleiðslu í rúmlega 100% af landsframleiðslu. Á sama tímabili hefur þjóðhagslegur sparnaður lækkað úr 25% í 10-15%. Þjóðhagslegur sparnaður er munurinn á þjóðartekjum og neyslu, einkaneyslu og samneyslu.

Ásgeir segir að 10-15% þjóðhagslegur sparnaður, eins og hefur verið síðustu 10 ár, sé lágt hlutfall, sérstaklega þegar haft er í huga að áætlað jafnvægisstig fjárfestingar sé 21%.

Ásgeir segist ekki vilja gera lítið úr því að það sé gott að eiga öflugt lífeyrissjóðakerfi. Það sé ekki síst gott fyrir ríkissjóð því hann þurfi þá ekki að taka á sig aukin útgjöld samhliða því að þjóðin eldist en það atriði er stór hluti af áhættu í ríkisfjármálum margra ríkja. Þessi mikla sjóðssöfnun hafi hins vegar þann ókost að eigið fé heimilanna minnkar.

Ísland er ekki bara í hópi þeirra þjóða sem er með öflugasta lífeyrissjóðakerfið, það er líka í einu af toppsætunum yfir fjölda heimila sem býr í eigin húsnæði.

Ásgeir segir að óvissa varðandi húsnæðisverð leiði til þess að þeir sem kaupa eigið húsnæði spara meir en ella. Skylduaðild að lífeyrissjóðum leiði hins vegar til þess að eigið fé heimila minnkar og að þau heimili sem kaupa eigið húsnæði auka varúðarsparnað sinn, en þó minna en sem nemur lífeyrissparnaðinum. Lán til þeirra verði því áhættusamari.

Ásgeir segir að þrátt fyrir þann mikla sparnað sem heimilin greiði í lífeyrissjóðina hafi heildarsparnaður heimilanna ekki aukist frá því lífeyrissjóðakerfið fór að eflast upp úr 1980.

Ásgeir færir í ritgerð sinni rök fyrir því að skylduaðild að lífeyrissjóðum, sem minnkar áhættu í fjármálum hins opinbera, geti aukið heildaráhættu ef áhætta tengd lánum til heimila og þeirra sem eiga leiguhúsnæði vaxi meira.

Rannsóknarritgerð Ásgeirs

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK