Landsbankinn mun bjóða hlutabréf í Fasteignafélaginu Regin til sölu dagana 18.-19. júní og stefnir að skráningu félagsins í framhaldinu. Viðskipti í Kauphöll með bréf félagsins munu þá hefjast um mánaðamótin júní/júlí. Þetta var tilkynnt í gær á heimasíðu félagsins og hafa kynningargögn verið birt. Félagið er að öllu leyti í eigu tveggja dótturfélaga Landsbankans þ.e. Eignarhaldsfélags Landsbankans ehf. og Bláma Fjárfestingafélags ehf.
Reginn tók til starfa vorið 2009 og var ætlað að fara með eignarhald á þeim eignum sem bankinn eignaðist í kjölfar fullnustuaðgerða eða annars konar skuldaskila. Landsbankinn mun bjóða alla hluti sína til sölu. Samkvæmt verðmati sem unnið var af fyrirtækjaráðgjöf Virðingar er heildarverðmæti félagsins á bilinu 30,8 til 34,1 ma. kr. og markaðsvirði alls hlutafjár á bilinu 15,0-18,3 milljarðar króna.
Í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka segir að með skráningu Regins muni fjölbreytni á íslenskum hlutabréfamarkaði aukast en Reginn er eitt stærsta fasteignafélag landsins og á auk Smáralindar og Egilshallar 27 fasteignir á höfuðborgarsvæðinu sem rýma atvinnustarfsemi af ýmsu tagi. Alls eru fasteignir í eigu Regins um 153 þúsund fermetrar eða sem nemur 3% af heildarfermetrafjölda atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta verður önnur nýskráningin á markað frá hruni en Hagar riðu á vaðið í desember sl. Auk Regins eru fleiri félög væntanleg á markað á þessu ári. Þannig áætlar Eimskip skráningu á fjórða ársfjórðungi þessa árs og stjórnendur Vodafone hafa tilkynnt að skráning muni eiga sér stað í haust að undangengu útboði.
Gangi skráningin eftir verður Vodafone fyrsta félagið sem Framtakssjóðurinn mun nýskrá á markað en líklegt er að önnur fyrirtæki sem eru að hluta eða að fullu í eigu Framtakssjóðsins verði einnig skráð á markað á næstu misserum en í þeirra hópi eru m.a. Advania sem hefur tilkynnt um skráningaráform árið 2013 og N1 sem hefur gefið út áform um skráningu innan tveggja ára, segir í Morgunkorninu.
„Þá er einnig líklegt að Prómens og Icelandic Group muni róa á sömu mið þegar fram líða stundir. Önnur félög sem nefnd hafa verið til sögunnar sem líkleg á hlutabréfamarkað á næstu misserum eru TM og Eimskip sem bæði hafa tilkynnt um fyrirhugaða skráningu, fasteignafélagið Reitir, tryggingafélögin VÍS og Sjóvá og þá hefur Skeljungur einnig viðrað áhuga á skráningu. Líklega munu einhver af ofangreindum félögum ná að klára skráningu á seinni hluta þessa árs eða á næsta ári og því ljóst að framboð á innlendum hlutabréfamarkaði mun aukast verulega á næstu misserum enda eru aðstæður góðar á íslenskum hlutabréfamarkaði um þessar mundir,“ segir í nýjasta Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.