Lífeyrissjóðirnir: Hægir á aukningu eigna

Hrein eign lífeyrissjóðanna hækkaði um 20,4 milljarða króna  í apríl síðastliðinn eða um 1%. Þetta er minni aukning en hefur verið undanfarna mánuði en fyrstu þrjá mánuði ársins jókst eign sjóðanna að jafnaði um 40 milljarða króna í mánuði hverjum. Hrein eign sjóðanna hefur aukist um 12,8% undanfarna 12 mánuði. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Að teknu tilliti til verðbólgu var raunaukning eigna sjóðanna mun minni, eða sem nemur um 6% á sama tímabili. Raunávöxtun eigna þeirra hefur þó verið öllu lakari enda nema iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga mun hærri fjárhæð en greiðslur til lífeyrisþega og úttektir séreignasparnaðar.

Það sem veldur hægari aukningu á eignum sjóðanna nú er að erlendar eignir þeirra drógust saman núna í aprílmánuði eftir að hafa aukist mjög fyrstu þrjá mánuði ársins. Spilar þar inni viðsnúningur á erlendum hlutabréfamörkuðum, auk þess sem veiking krónunnar sem eykur á hækkun erlendra eigna í krónum talið stöðvaðist í apríl.

Erlendar eignir sjóðanna námu 515,5 milljörðum króna í lok apríl og hafa dregist saman um 4,3 milljarða króna frá fyrri mánuði, eða um 1%. Erlendar eignir lífeyrissjóðanna námu í lok apríl 23% af heildareignum sjóðanna.

Erlendir hlutabréfamarkaðir byrjuðu árið mjög vel og hækkuðu hlutabréf mikið í verði framan af árinu. Í apríl hefur þetta hinsvegar snúist við en t.d. lækkaði CAC vísitalan í Frakklandi um 6,2% í mánuðinum, þýska Dax vísitalan lækkaði um 3% og í Stokkhólmi og London lækkuðu hlutbréf um 2,5% í verði.. Reikna má með að erlendar eignir lífeyrissjóðanna dragist enn frekar saman í maímánuði en erlendir hlutabréfamarkaðir héldu áfram að lækka  í þeim mánuði auk þess sem gengi krónunnar styrkist um 2% í maí gagnvart helstu myntum., segir í Morgunkorninu.

Innlendar eignir sjóðanna jukust hinsvegar um 1% í apríl, eða um 15,6 milljarða króna. Í heildina nema innlendar eignir sjóðanna nú 1.615 milljörðum, eða 58% af heildareignum sjóðanna. Af innlendum eignum hækkar eign sjóðanna í ríkisbréfum um 4,4 ma.kr og eign í íbúðarbréfum um 3,8 milljarða. Þá hækkar eign lífeyrissjóðanna í sjóðum og bankainnistæðum um rúmlega 9. ma.kr frá fyrri mánuði. Nam sú eign 158,5 milljörðum í lok apríl og hefur hún ekki verið hærri síðan í nóvember árið 2010. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir