Vilja fjölga ráðstefnugestum

Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík.
Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík.

„Okkar hlutverk er að stækka kökuna með því að fá sem flesta til að hugsa um Ísland sem heppilegan stað fyrir ráðstefnur, fundi og aðra viðburði,“ sagði Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavik.

Samstarfsvettvangurinn Meet in Reykjavik (Ráðstefnuborgin Reykjavík) var stofnaður 27. janúar síðastliðinn. Voru það Reykjavíkurborg, Icelandair Group og Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús sem mynduðu kjölfestu fyrir nýjan samstarfsvettvang um markaðssetningu á Reykjavík sem alþjóðlegri ráðstefnu- funda- og viðburðaborg, ásamt breiðum hópi aðildarfélaga og má þá helst nefna Iceland Express, Exton, Bláa Lónið og Landsbankann. Harpa og Icelandair skuldbundu sig til að koma inn með 25 milljónir króna hvor aðili og Reykjavíkurborg leggur verkefninu til 45 milljónir króna á ári. Fleiri aðilar hafa verið að bætast við hópinn og má þar nefna Hótel Sögu og Grand Hótel.

Fjórir verkefnastjórar til starfa

Að sögn Þorsteins er vinnan komin á fullt en þar sem í sumum tilfellum getur tekið allt að fjögur ár til að fá ráðstefnuhaldara til að taka ákvörðun þá getur tekið nokkurn tíma þar til afrakstur verkefnisins sést. Á skrifstofunni starfa í dag fjórir verkefnastjórar, hver með sitt sérsvið. 

Að sögn Þorsteins er hér um að ræða metnaðarfullt verkefni sem getur haft umtalsverð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi ef vel tekst til. Stefna samtakanna er að auka vægi ráðstefnumarkaðarins í Reykjavík með markvissri markaðssetningu erlendis og nýta til þess samtakamátt þeirra er að verkinu standa. Stefnt er að uppbyggingu á víðtæku stuðningsneti innan íslensks atvinnu- og þekkingarsamfélags og virkja þannig áhuga Íslendinga í alþjóðasamskiptum á að halda ráðstefnur og fundi sinna fagfélaga hér á landi.

Það kom fram í máli Þorsteins að ýmsar upplýsingar vantaði um ferðavenjur og komur ferðamanna sem nauðsynlegt væri að bæta úr til að geta eflt markaðsstarf. Því sé nauðsynlegt að verja meira fé til rannsókna á sviði ferðaþjónustu.

Léttir á annarri ferðamennsku

Þorsteinn benti á að ferðaþjónustan hér á landi er komin að þolmörkum í nýtingu yfir sumarmánuðina og yfir vetrarmánuðina er nýting á hótelherbergjum mest um helgar. „Það liggja gríðarleg verðmæti í því að auka fjölda ráðstefnu-, funda- og viðburðagesta til Reykjavíkur þar sem þeir eru bæði arðbærari en hinn almenni ferðamaður og koma í mörgum tilfellum á hagkvæmasta tímanum hvort heldur litið er til ársins í heild eða innan vikunnar utan háannar,“ sagði Þorsteinn. Hann benti á að oft væri um það að ræða að ráðstefnugestir væru kæmu hingað í miðri viku sem bætti mjög nýtingu mannvirkja.

Ráðstefnu- og viðburðagestir í dag eru um 25.000 á ári og ef gert er ráð fyrir 20% aukningu, þá er verið að tala um 5000 - 6000 gesti árlega. Meðalkostnaður á hvern gest er áætlaður um 60.000 krónur á dag, meðaldvalartími er 3- 4 dagar.

Það er því mikilvægt að sækja á þennan markað og geta þannig myndað starfsgrundvöll allt árið fyrir mörg þjónustufyrirtæki sem eru að þjónusta beint og óbeint þennan markað. „Fyrir utan þau verðmæti sem eru að skapast í þjóðfélaginu um leið,“ sagði Þorsteinn. 

Hann benti á að ráðstefnu og viðburðargestir eyði mun meiri fjármunum sem allir í ferðaþjónustunni nytu. Þeir væru í mörgum tilfellum að ferðast á kostnað annarra sem gerðu þeim kleyft að eyða meiru í innkaup, mat og drykk og aðra þjónustu.

En hve mikið er hægt að auka ferðir slíkra gesta? „Við slettum stundum og segjum „the sky is the limit“ en í raun eru gríðarleg tækifæri gagnvart slíkum gestum. Við teljum að Reykjavík hafi mikil tækifæri á þessu sviði. Tilkoma Hörpunnar sem ákveðins kennileitis hjálpar án efa til,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir