Moody's lækkar einkunn Kýpur

Frá Kýpur. Úr myndasafni.
Frá Kýpur. Úr myndasafni. Wikipedia/EUCyprus

Lánshæfiseinkunn Kýpur hefur verið lækkuð um tvo flokka niður í Ba1 af alþjóðlega matsfyrirtækinu Moody's en eyjan hefur náin efnahagsleg og menningarleg tengsl við Grikkland sem hefur átt við alvarlega efnahagserfiðleika að stríða undanfarin ár.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að Moody's telji að stjórnvöld á Kýpur verði að tryggja fjármögnun bankakerfis síns sem sé of háð grísku efnahagslífi.

Komið hefur fram í fréttum að Kýpur kunni að óska eftir neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu og komi til þess bætist það í hóp þeirra evruríkja sem hafa neyðst til þess. Þá hefur einnig verið rætt um að Rússar kunni að veita eyríkinu fjárhagsaðstoð til þess að það þurfi ekki að leita á náðir sambandsins.

Á Euobserver.com segir ennfremur að Kýpur kunni að þurfa fjögurra milljarða evra aðstoð og sé nú að skoða hvort hagstæðast sé að fá slíka aðstoð frá ESB, Kína eða Rússlandi. „Við munum leita eftir bestu mögulegu skilmálunum fyrir efnahagslífið,“ er haft eftir bankastjóra Seðlabanka Kýpur, Panicos Demetriades.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir