Hreinn stjórnarformaður Reiknistofu bankanna

Hreinn Jakobsson.
Hreinn Jakobsson. mbl.is/Frikki

Aðalfundur Reiknistofu bankanna hf - RB var haldinn föstudaginn 1. júní 2012, en 2011 var fyrsta starfsár RB sem hlutafélags. Hagnaður af starfsemi RB á síðasta ári nam 166 milljónum króna og skilaði félagið 330 milljónum í rekstrarhagnað (EBITDA) fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði. Tekjur félagsins árið 2011 námu rúmum 2,8 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reiknistofu bankanna.

Fram til ársins 2011 var Reiknistofan rekin sem sameign íslenskra banka, sparisjóða, kortafyrirtækja og Seðlabanka Íslands. Reiknistofunni var hins vegar breytt í hlutafélag 1. janúar 2011 og um leið fór Seðlabankinn úr eigendahóp félagsins. RB hefur síðan verið rekið sem sjálfstætt hlutafélag.

Ný stjórn félagsins var kjörin á aðalfundinum en hana skipa: Gunnlaug Ottesen, Heiðrún Jónsdóttir, Hreinn Jakobsson, Páll Jensson og Ragnar Þ. Guðgeirsson. Hreinn Jakobsson var í framhaldi aðalfundar skipaður stjórnarformaður RB, en Hreinn hefur um árabil komið að rekstri tæknifyrirtækja hér á landi sem og á Norðurlöndunum.   

Ný varastjórn RB var einnig kjörin á fundinum. Hana skipa: Hákon Gunnarsson fulltrúi Arion banka, Herdís Pála Pálsdóttur, Laufey Ása Bjarnadóttir, Marina Candi og Sæmundur Sæmundsson.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir