Fyrrverandi forstjóri Geysis vill kaupa HS Orku

HS Orka áformar að stækka Reykjanesvirkjun.
HS Orka áformar að stækka Reykjanesvirkjun. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Alexander K. Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Geysis Green, er m.a. þeirra sem vinna að því ásamt fleirum að kaupa hlut kanadíska fyrirtækisins Alterra Power í HS Orku. Ekki er útilokað að lífeyrissjóðirnir auki hlut sinn í félaginu. Geysir Green átti áður 98% hlut í HS Orku.

Það hefur ekki ríkt sérstakur stöðugleiki í eignarhaldi HS Orka síðustu árin. Fyrirtækið, sem áður hét, Hitaveita Suðurnesja er eina íslenska orkufyrirtækið sem hefur verið einkavætt. Fyrirtækið hefur skipt um eigendur oftar en einu sinni síðan það var selt árið 2007.

Sveitarfélögin og ríkið seldu

Eigendur Hitaveitu Suðurnesja voru nokkur sveitarfélög, aðallega á Suðurnesjum, en auk þess átti ríkissjóður 15% hlut. Árið 2007 keypti Geysir Green Energy 28,4% hlut í félaginu af Vestmannaeyjabæ, Árborg, Kópavogi, Vogum, Sandgerði, Grindavík og Garði. Heildarkaupverð var 15 milljarðar króna. Geysir Green keypti einnig hlut ríkissjóðs og var þannig kominn með 43% hlutafjár.

Hafnarfjörður og Grindavík seldu síðar Orkuveitu Reykjavíkur sinn hlut. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að OR væri óheimilt að eiga þennan hlut.

Stærsti hluthafinn í Hitaveitu Suðurnesja, Reykjanesbær, seldi sinn hlut í fyrirtækinu árið 2009 til Geysir Green. Í ársbyrjun 2009 var fyrirtækinu skipt upp í HS Orku og HS veitur. Reykjanesbær hélt eignarhlut sínum í HS Veitum, sem sér um dreifingu orkunnar og fer með eignarhaldið á orkulindunum. Félagið gerði síðan samning við HS Orku um nýtingu á orkulindunum.

Geysir seldur til Magma

Geysir Green Energy varð fyrir miklu tapi í kjölfar hrunsins. Félagið tapaði 16,7 milljörðum árið 2008 og 17,8 milljörðum króna á árinu 2009. Félagið hafði því ekki styrk til að eiga HS Orku áfram.

Árið 2010 seldi Geysir Green hlutabréf sín í HS Orku til kanadíska félagsins Magma Energy, en aðaleigandi þess félags var Ross Beaty. Kaupverðið var um 32 milljarðar.

Þessi kaup Ross Beaty vöktu ekki hrifningu hjá öllum hér á landi. Þó margir hefðu hvatt til aukinna erlendrar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi töldu aðrir að hér væru útlendingar að reyna að komast yfir orkulindir Íslendinga. Engu skipti þó orkulindirnar væru í eigu HS Veitna því nýtingarsamningarnir væru til of langs tíma. Um tíma leit út fyrir að þetta mál gæti leitt til þess að ríkisstjórnin missti þingmeirihluta sinn þegar nokkrir þingmenn VG hótuðu að hætta stuðningi við stjórnina ef ekki yrði snúið ofan af þessu máli.

Deilurnar um Magma snerust líka um að fyrirtækið hafði stofnað dótturfyrirtæki í Svíþjóð sem fór með eignarhlutinn, en samkvæmt lögum máttu félög utan EES ekki eiga eignarhlut í orkulindum á Íslandi.

Lífeyrissjóðirnir koma inn í HS Orku

Á síðasta ári seldi Magma Sweden 25% hlut í HS Orku hf. til Jarðvarma, sem var nýtt félag í eigu 14 lífeyrissjóða. Kaupverðið var rúmlega 8 milljarðar. Í samkomulagi milli Magma og Jarðvarma var jafnframt ákvæði um forkaupsrétt Jarðvarma að nýju hlutafé á föstu verði þannig að hlutur Jarðvarma yrði þá 33,4%. Jarðvarmi ákvað síðan að nýta þessa heimild og var gengið frá viðskiptunum í lok febrúar 2012. Kaupverðið um 4,7 milljarðar króna. Alterra Power fer núna með 66,6% hlut í HS Orku, en félagið er í eigu Ross Beaty.

Nú eru lýkur á að Alterra selji hlut sinn því að í dag barst fréttatilkynning um að Modum Energy og sjóðir í rekstri Stefnis hf., hafi í samstarfi við Arion banka hf. gert kauptilboð í allan eignarhlut Alterra Power í HS Orku hf. Gangi kaupin eftir verður félagið alfarið í eigu Íslendinga.

Modum Energy vill kaupa af Ross Beaty

Modum Energy ehf. er íslenskt félag sem sérhæfir sig í vinnslu vistvænnar orku úr vatnsföllum og jarðvarma. Forystumenn Modum eru Alexander K. Guðmundsson viðskiptafræðingur og Eldur Ólafsson jarðfræðingur. Alexander er fyrrverandi forstjóri Geysis Green. Eldur hefur áður unnið hjá orkufyrirtækjunum Geysi Green Energy og Enex Kína, sem er í eigu Geysir Green. REI, dótturfélag OR, sem ætlaði sér stóra hluti í orkuútrásinni, átti um tíma hlut í Enex Kína, en hann var seldur í lok síðasta árs til Orku Engery. Alexander hefur eins og Eldur starfað fyrir Enex Kína.

Stefnir hf.  er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með yfir 340 milljarða króna í virkri stýringu. Félagið rekur innlenda og alþjóðlega sjóði fyrir einstaklinga og fagfjárfesta auk þess að stýra félögum utan um fasteigna- og framtaksfjárfestingar. Félagið er í eigu Arion banka.

Á grundvelli kauptilboðsins er samkomulag um að láta á það reyna hvort samningar náist um kaupin. Aðilar stefna að því að á haustmánuðum liggi fyrir hvort af kaupunum geti orðið. Unnið verður að því að stækka hóp fjárfesta í verkefninu m.a. með aðkomu lífeyrissjóða. Verði af kaupunum er stefnt að skráningu félagsins í kauphöll á næstu misserum og mun almenningi þannig gefast kostur á að eignast hluti í HS Orku.

Skuldar 23,5 milljarða

Heildartekjur HS Orku voru 7,4 milljarðar á síðasta ári. Félagið skuldar 23,5 milljarða. Fjárhagsstaða félagsins versnaði eftir hrun og uppfyllti það ekki á árinu 2008 skilmála lánasamninga um eiginfjárhlutfall o.fl. Samkomulag náðist undir lok ársins 2009 um tímabundnar undanþágur fyrir árin 2009 og 2010. Félagið uppfyllir nú alla lánsskilmála nema varðandi eiginfjárhlutfall hjá EIB, Fjárfestingabanka Evrópu, en aftur hefur verið gengið frá tímabundinni undanþágu við bankann. Eiginfjárhlutfall var 41,1% í lok árs 2011.

HS Orka starfar á Suðurnesjum
HS Orka starfar á Suðurnesjum mbl.is/Ómar Óskarsson
Alexander K. Guðmundsson er forstjóri Geysis Green, en það félag …
Alexander K. Guðmundsson er forstjóri Geysis Green, en það félag átti áður 98% hlut í HS Orku.
Eldur Ólafsson hefur áður unnið hjá orkufyrirtækjunum Geysi Green Energy …
Eldur Ólafsson hefur áður unnið hjá orkufyrirtækjunum Geysi Green Energy og Enex Kína,
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK