Staða launa eins og 2004

Bjarni Geir og Jósef segja kaupmátt launa vera sambærilegan því ...
Bjarni Geir og Jósef segja kaupmátt launa vera sambærilegan því sem var árið 2004. Heiðar Már segir hann hins vegar eins og árið 1993. mbl.is/Golli

Hagfræðingarnir Bjarni Geir Einarsson og Jósef Sigurðsson segja kaupmátt launa vera nú um 9,5% lægri en árið 2006 og hann sé sambærilegur því sem var árið 2004. Í grein sem hagfræðingarnir sendu frá sér nú síðdegis svara þeir ummælum Heiðars Más Guðjónssonar, hagfræðings, í Morgunblaðinu í dag.

Í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins, sem kom út í dag, segir Heiðar Már Guðjónsson að ólíkt því sem meðlimir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands haldi fram séu launakjör nú sambærileg þeim sem voru árið 1993. Þá bendir Heiðar Már á að til þess að fá þá niðurstöðu að launastig sé sambærilegt því sem var árið 2006 hafi ekki verið tekið tillit til verðbólgu. Slíkan samanburð telur Heiðar Már að beri vitni um að peningaglýju.

Þeir Bjarni Geir Einarsson og Jósef Sigurðsson, hagfræðingar við rannsóknar og spádeild hagfræði og peningastefnusviðs Seðlabanka Íslands, segja að nokkrar staðreyndavillur séu í máli Heiðars Más sem rétt sé að leiðrétta.

Í grein Bjarna og Jósefs segir m.a. að með peningaglýju vísi Heiðar Már til þess þegar bornar séu saman krónutölur yfir tíma en ekki tekið tillit til breytinga í verðlagi. Sé fallið í þá gryfju væri niðurstaðan sú að laun á Íslandi væru 36% hærri í dag en árið 2006. Peningastefnunefnd hafi ekki látið það villa sér sýn, enda ekkert vit í slíkum samanburði.

Í greininni segir svo:

„Við skoðun launaþróunar yfir tíma er hins vegar réttast að líta til kaupmáttar, þ.e. þróun vísitölu launa að teknu tilliti til verðbólgu. Samkvæmt Heiðari Má eru launakjör nú sambærileg og árið 1993. Þar skoðar hann laun mæld á föstu verðlagi „sem þýðir að leiðrétt er fyrir verðbólgu og höfð í alþjóðlegum myntum“. Með öðrum orðum leiðréttir Heiðar Már bæði fyrir þróun verðlags og gengis. Í þeim samanburði er hins vegar gengisþátturinn tvítalinn því gengisbreytingar hafa bein áhrif á verðbólgu í gegnum innflutning á erlendum vörum. Til einföldunar má hugsa sér að til þess að fá sem eðlilegastan mælikvarða á þróun launa á Íslandi má segja að kaupmáttur geti mælt hversu marga kaffibolla laun Íslendings kaupi, borið saman við fjölda kaffibolla í fyrra. Inn í verði á kaffibollanum eru bæði innlendir þættir, t.d. mjólk og vatn, en einnig innfluttir þættir eins og kaffibaunir sem gengisbreytingar hafa bein áhrif á. Sé tekið tillit til gengisbreytinga í ofanálag er gengisþátturinn augljóslega oftalinn. Jafnframt má ætla að við gengisbreytingar og þar með verðhækkun á innfluttum vörum færi neytendur í auknum mæli neyslu sína frá innfluttum vörum í innlendar. Gengisbreytingar skila sér því ekki að fullu í lækkun kaupmáttar.“

„Ef skoðuð er þróun rétt reiknaðs kaupmáttar kemur í ljós að kaupmáttur launa er nú um 9,5% lægri en árið 2006 en sambærilegur við árið 2004. Þetta er byggt á samanburði fyrsta ársfjórðungs 2012 og meðaltali hvors árs. Rétt er því að halda fram að kaupmáttur nú er því sambærilegur og hann var við upphaf síðustu uppsveiflu. Það er því ljóst að lífskjör á Íslandi, mæld á þennan máta, eru langt því frá eins slæm og Heiðar Már vill halda fram. Frá árinu 1993 hefur kaupmáttur launa á Íslandi hækkað um rúm 45% og hækkaði kaupmátturinn samfellt frá 1994 fram til ársins 2008. Vissulega tapaðist kaupmáttur í kreppunni en því fer víðsfjarri að allur ávinningur síðustu tveggja áratuga hafi glatast.
Að lokum er rétt að benda á að verðbólga á Íslandi síðustu 12 ár var ekki 130% eins og Heiðari Má reiknast til heldur rúm 95% sé meðaltal vísitölu neysluverðs fyrsta fjórðungs 2012 borin saman við meðaltal vísitölu neysluverðs ársins 2000, sem mörgum finnst meira en nóg.“

Þeir Bjarni Geir og Jósef taka fram að umræddar skoðanir séu þeirra en þurfi ekki endilega að endurspegla skoðanir Seðlabanka Íslands.

„Inn í verði á kaffibollanum eru bæði innlendir þættir, t.d. ...
„Inn í verði á kaffibollanum eru bæði innlendir þættir, t.d. mjólk og vatn, en einnig innfluttir þættir eins og kaffibaunir sem gengisbreytingar hafa bein áhrif á.“ mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir