Nafngreina aðila í skattaskjólum

Breska stjórnin þarf að ákveða hvernig hún muni berjast gegn …
Breska stjórnin þarf að ákveða hvernig hún muni berjast gegn undanskoti skatts. AFP

Breska fjármálaráðuneytið mun í næstu viku hefja átak til að ráðast gegn þeim sem hafa flutt fjármagn sitt í skattaskjól og þeim sem hafa nýtt sér skattahagræðingu til að borga sem lægsta skatta. Um helgina var sagt frá gífurlegum fjárhæðum sem haldið er utan við skattkerfi heimsins. Hefur aukið umtal um málið vakið upp reiði bresks almennings sem hefur krafist þess að komið verði í veg fyrir þessi undanskot.

Mál breska grínistans Jimmys Carr frá því í síðasta mánuði hefur aftur komið til tals, en þar lét hann á löglegan hátt allar greiðslur sem hann fékk af sölu DVD-diska og aðrar tekjur fara inn í félag sem svo „lánaði“ honum sömu upphæð til baka og komst þar með hjá því að greiða skatta að mestu leyti. Er bent á að hann sé ekki einsdæmi og séu margir mjög ríkir Bretar sem noti svipaðar leiðir til að komast hjá skattgreiðslum. Þessar aðferðir eru á gráu svæði en virðast ekki vera ólöglegar og því hefur ekkert verið gert við þeim hingað til. 

Skattayfirvöld í Bretlandi vilja aftur á móti spyrna við þessu og hafa lagt til að þau fái heimildir til að krefja aðila sem sjá um þessar skattahagræðingar um gögn sem nafngreini viðskiptavini þeirra, að því er fram kemur í frétt Guardians um málið. Ef ákveðið yrði að fara í gerðadóm með mál viðkomandi yrði hann nafngreindur opinberlega. Telja yfirvöld að þetta gæti haft töluverðan fælingarmátt, en fyrrnefndur Carr ákvað eftir að sagt var frá hans undanskotum að færa alla fjármuni sína til Bretlands aftur og sagðist ætla að greiða fulla skatta héðan í frá.

Hefur David Gauke, ráðherra skattamála á Bretlandi, þegar gagnrýnt þá sem flytja fé í skattaskjól eða nýta sér þessar skattahagræðingar. „Þeir eyðileggja traust almennings og grafa undan hinum almenna skattgreiðenda sem í staðinn þarf að greiða hærri skatta til að borga undir laumufarþegana.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK