Markaðsfólk úr sambandi á Íslandi

Margar hugmyndanna tengdu við möguleika í ferðaþjónustu í íslenskri náttúru
Margar hugmyndanna tengdu við möguleika í ferðaþjónustu í íslenskri náttúru Þorvaldur Örn Kristmundsson

Mikið hefur verið lagt upp úr að kynna Ísland erlendis og vinna með hugmyndir um hvað það sé við Ísland sem þyki áhugavert að upplifa og hvað drífi ferðamenn í að fljúga yfir Atlantshafið á þessa eldfjallaeyju sem Ísland er. Hvort sem það er náttúran, íslenski hesturinn, skemmtanalífið, græn orka, tónlist eða hvalir þá er ljóst að ferðamenn sjá margt spennandi við Ísland sem viðkomustað. 

Kippt úr sambandi

Nýlega kom bandaríska vörumerkjaþróunarfyrirtækið Prophet hingað til lands í hvataferð sem var undirlögð undir hugmyndavinnu til að markaðssetja Ísland. Ætlunin var að taka alla starfsmennina 250 úr sambandi við umheiminn, en engir símar, tölvur eða notkun á facebook var leyfð meðan á vinnunni stóð. Starfsfólkinu var svo skipt í fjölmarga hópa sem unnu að markaðssetningarhugmyndum fyrir Ísland þar sem tenging var gerð milli sex vaxtarsviða sem Íslandsstofa hefur sett fram og ferðamennsku. 

Samkvæmt upplýsingum frá Ingu Hlín Pálsdóttur hjá Íslandsstofu hafði bandaríska fyrirtækið samband og óskaði eftir samstarfi um þessa hugmyndavinnu sína þar sem ætlunin væri að virkja starfsfólkið til skapandi hugmyndavinnu um raunverulegt markaðsverkefni. „Þá langaði að gera eitthvað tengt Íslandi og voru að velta fyrir sér hvernig það væri hægt án þess að vinna fyrir fyrirtæki. Þeir höfðu fylgst með Inspired by Iceland-verkefninu og þeirri vinnu sem var búið að vinna þar.“

Skoðuðu framtíðarmöguleika

Íslandsstofa tók vel í fyrirspurnina og segir Inga að unnið hafi verið út frá grunnhugmyndafræði fyrir markaðssetningu erlendis sem gerð var í fyrra og byggir á sex vaxtarsviðum. Þetta eru: Heilsa og vellíðan, skapandi greinar, hugverk, sjálfbær orkunýting, ferðaþjónusta og matvæli. Hver hópur hafi valið einn flokk og svo tengt það við efnahagslífið, fólk, menningu og náttúru til að sjá hvar þau sæju framtíðarmöguleika hérlendis.

Prophet er með starfsstöðvar víða um Bandaríkin og Evrópu og segir Inga mjög mikilvægt að fá svona góða og fjölþjóðlega sýn frá sérfræðingum á markaðssviði um hugmyndir í markaðssetningu og möguleika hérlendis varðandi uppbyggingu á atvinnu og í ferðamannaiðnaði. 

Ókeypis greining

Í grein á fréttavef Forbes segir Scott Davis hjá Prophet að ferðin hingað hafi verið „fullkomið tækifæri til að  fá innblástur frá náttúrunni og menningarlegum hliðum landsins til að vera skapandi og aðstoða við að ýta undir efnahagsvöxt hérlendis“. 

Í lok vikunnar var svo hugmyndavinnan gefin Íslandsstofu og segir Inga að unnið verði í því að fara yfir hugmyndirnar og nota það sem við á til að bæta um betur í þeirri markaðssetningu sem stendur yfir með Ísland. Ljóst er að ekki gefst oft tækifæri til að fá slíka ókeypis greiningu og hugmyndavinnu fyrir landið frá erlendum aðilum sem hugsanlega sjá landið með öðrum augum en Íslendingar.

Meðal markaðssérfræðinganna var sérstaða íslensks vatns stórt tækifæri.
Meðal markaðssérfræðinganna var sérstaða íslensks vatns stórt tækifæri. Morgunblaðið/Einar Falur
Nokkrir hópanna bentu á mikla möguleika í fiskiðnaðinum
Nokkrir hópanna bentu á mikla möguleika í fiskiðnaðinum mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK