„Taka erfiða þáttinn út“

(fv) Halldór, Ragnar, Hrafn og Arnar, framleiðendur Datatracker.
(fv) Halldór, Ragnar, Hrafn og Arnar, framleiðendur Datatracker. Startup Reykjavík

Cloud Engineering er íslenskt sprotafyrirtæki sem vinnur að gerð hugbúnaðarins Datatracker sem sækir verðupplýsingar sjálfvirkt á netinu á einfaldan og ódýran hátt. Hönnuðir kerfisins vilja gera fyrirtækjum kleift að fylgjast með verðlagningu hjá samkeppnisaðilunum án þess að þurfa sérfræðiaðstoð við uppsetningu og umsýslu gagnasöfnunarinnar.

Í samtali mbl.is við Ragnar Fjölnisson framkvæmdastjóra félagsins sagði hann að stutt væri í að tilraunaútgáfa af hugbúnaðinum færi í loftið og að miklir möguleikar væru fyrir hendi með einfaldan búnað sem þennan á tímum þar sem allir söluaðilar væru að reyna að bjóða upp á betra verð en sá næsti.

„Það fer mikill tími í að vera á netinu og taka niður ákveðnar upplýsingar inn í annaðhvort excel skjal eða upplýsingakerfi“ segir Ragnar, en stofnendurnir höfðu tekið eftir því að í mörgum greinum, sérstaklega þjónustugeiranum, þá fylgdust samkeppnisaðilar mjög náið með verðlagningu hvers annars, jafnvel nokkrum sinnum í viku. „Í staðin fyrir að gera þetta handvirkt bjóðum við notendum að gera þetta sjálfvirkt. Þú setur einu sinni upp ferilinn og svo skoðar hann verðið sjálfkrafa á ákveðnum fresti eftir því sem notandinn óskar.“

Ekki þörf á sérfræðiaðstoð

Þar sem verðsamanburður er nokkuð stór grein lá beint við að spyrja Ragnar hvort ekki væri mikil samkeppni fyrir hendi og hvort fyrirtækið hefði einhverja sérstöðu á þessum markaði. „Venjulega er þetta eldri tækni sem er miðuð á risastór fyrirtæki. Það er dýrt að innleiða svona kerfi og erfitt að nota þau, þar sem þú þarft alltaf sérfræðinga til að koma og hjálpa þér með innleiðinguna.“ Ragnar segir að þeir séu að „taka erfiða þáttinn út og minnka kostnaðinn mikið“, þannig að venjulegur notandi eða minni fyrirtæki geti nýtt sér svona lausnir án mikilla útgjalda eða sérfræðiaðstoðar.

Í október fer tilraunaútgáfa hugbúnaðarins í loftið og munu 200 aðilar hjálpa til við frekari þróun. Ragnar segir að nú þegar sé tilbúin laus sem geti fylgst með vefbúðum og þar sem verðupplýsingar eru á einföldu formi. Aftur á móti sé verið að vinna að bættu viðmóti þar sem mögulegt er að setja frekari skipanir inn, svo sem að skoða hótelverð 7 daga fram í tímann á tveggja manna herbergi.

Fjölmörg tækifæri

Til að byrja með verður sérstök áhersla lögð á að kynna hugbúnaðinn sem viðbót við Salesforce viðskiptahugbúnaðinn í gegnum Appexchange sölukerfið, en yfir 100 þúsund fyrirtæki og 3 milljónir notenda nota Salesforce. Segir Ragnar að sá markaður hafi þegar sannað sig fyrir hugbúnaðarframleiðendur, en einnig muni þeir horfa til þess að selja kerfið eitt og sér og síðar færa sig yfir í að vera viðbót við t.d. Microsoft viðskiptakerfin, SAP og fleiri lausnir sem sérhæfi sig í viðskiptagreind. Gerir Ragnar þó ráð fyrir að söluleiðin gegnum Salesforce verði stærsti stökkpallurinn í átt að stærri viðskiptavinum.

Auk Ragnars standa að fyrirtækinu þeir Arnar Laufdal Ólafsson sem er forstjóri, Hrafn Eiríksson og Halldór Guðnason. Fyrirtæki þeirra var eitt af tíu sem voru valin til þátttöku í Startup Reykjavík og kynntu þeir framgang verkefnisins og möguleika fyrir fjárfestum á fundi í Arion banka fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK