Miklir möguleikar kringum Airwaves: Alltaf opin fyrir samstarfi

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Iceland Airwaves
Grímur Atlason framkvæmdastjóri Iceland Airwaves SteinarH

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves er miklu meira en bara hátíð sem stendur yfir í fimm daga í hjarta Reykjavíkur að mati Gríms Atlasonar, framkvæmdastjóra hátíðarinnar. Hún er orðin að stóru verkefni yfir allt árið sem trekkir að fjölda ferðamanna og vekur athygli á landi, þjóð og ekki síst tónlistarmönnum og hljómsveitum. Auk þess að halda hátíðina í Reykjavík fara íslenskar hljómsveitir utan til að spila á vegum Airwaves.

Umfjöllun um hátíðina, vinsældir íslenskrar tónlistar erlendis og upplifun þeirra sem sækja Reykjavík heim haust hvert hefur gert mikið fyrir þann aukna áhuga sem Ísland hefur fengið erlendis. Í viðtali við mbl.is ræddi Grímur um hátíðina, mögulegan vöxt, áhrif hennar hérlendis og samstarf við innlenda aðila.

Erlendum gestum fer fjölgandi

Síðustu sjö ár hefur verið uppselt á hátíðina og í ár seldust miðar upp í byrjun ágúst, en aldrei áður hefur selst upp jafnskjótt. Fyrir 13 árum þegar hátíðin var fyrst haldin í flugskýli 4 gekk þetta ekki alveg jafn vel fyrir sig og segir Grímur að miðar sem seldust þá hafi verið fáir og menn hafi þurft að „múta“ bæði erlendum gestum og tónlistarfólki til að mæta. Sem betur fer hafi menn þó ekki gefist upp og styrktaraðilarnir haft trú á verkefninu. Hátíðin hafi hægt og rólega byggst upp og sé í dag í hámarksstærð fyrir þann viðburð sem skipuleggjendurnir vilji halda.

Heildarfjöldi miða á hátíðina er 7.000, en af þeim eru um 5.000 sem fara í sölu. Afgangurinn fer til tónlistarmanna og annarra sem koma að hátíðinni. Hlutfall erlendra ferðamanna fer stigvaxandi og er fjöldi Bandaríkjamanna farinn að nálgast fjölda Íslendinga. „Við erum með visst þak á hvað er hægt að taka við mörgum erlendum gestum. Íslendingar voru seinir í ár að taka við sér og kaupa miða og misstu því af lestinni. Hlutfallið verður væntanlega í kringum þessa tölu á næstu árum,“ segir Grímur, en um 70% af gestum hátíðarinnar eru erlend í ár.

Stórt fyrirtæki allt árið

Mesti vöxtur hátíðarinnar undanfarin ár hefur verið í því að kynna íslensk bönd erlendis og auka samstarfið við erlendar hátíðir og samstarfsaðila, en Grímur segir markmið Iceland Airwaves meðal annars vera að trekkja að fleiri ferðamenn. „Airwaves er í gangi allt árið, þetta er afrakstur vinnu sem er að vaxa og dafna. Við förum um allan heiminn með íslenska tónlistarmenn og við erum að kynna þá á erlendum hátíðum. Ég held að við ættum að nýta það tækifæri af því að við erum að reyna að fjölga ferðamönnum, því tónlistin laðar að erlenda ferðamenn.“

Grímur leggur áherslu á nauðsyn þess að hugmyndaríkir aðilar nýti sér hátíðir sem þessa til að búa til og kynna upplifun sem ferðamenn sækist eftir. „Ég hef sjálfur, þegar ég var bæjarstjóri, upplifað að ferðamenn komu á ákveðna staði til að skoða hluti sem þeir höfðu séð í tengslum við bíómyndir, bókmenntir eða tónlist.“ Nefnir hann sem dæmi að fólk hafi viljað skoðað húsið úr myndinni Nóa albínóa og sjá staðina sem koma fram í Heima-myndbandi Sigur Rósar.

Fagnar frekara samstarfi við hátíðina

Aðspurður hvort Airwaves sé að leita að frekari samstarfsaðilum segir Grímur að nú þegar séu fjölmargir beinir og óbeinir samstarfsaðilar. Fyrir utan stóra styrktaraðila og staði eins og Bláa lónið, sem heldur árlegt afslöppunarpartí, eru fjölmargir staðir sem sjá um viðburði utan dagskrár og ferðaþjónustuaðilar sem fá stóran viðskiptahóp sem er einnig til í að halda út í íslenska náttúru í stuttan tíma. Hann segir allt opið fyrir aukið samstarf kringum hátíðina og vill sjá að aðilar í ferðaþjónustunni nýti sér þessa innspýtingu á sem fjölbreyttastan hátt þegar hátíðin er haldin hvert haust.

Fjöldi fyrirtækja hefur nú þegar nýtt sér hátíðina til þessa og fagnar Grímur því. „Það er fullt af fyrirtækjum sem eru skapandi sem nýta sér hátíðina. Kex hostel hefur nýtt sér gríðarlega mikið menninguna og tónlistina og dafnar vel í kringum þetta. Það eru auðvitað ferðir eins og sérhæfðar fjallaferðir og annað sem fólk fer í, því þetta er ungur hópur sem hefur áhuga á náttúru, þótt hann hafi líka áhuga á tónlist.“

Ekki bara bakpokaferðamenn

Lengi vel var talið að erlendir gestir hátíðarinnar væru aðallega bakpokaferðamenn sem eyddu litlum peningum, en Grímur segir það vitleysu. „Rannsóknir okkar sýna að ferðamenn gera mjög mikið [meðan þeir eru hérlendis]. Fólk er að kveikja meira og meira á því að þetta er góður markhópur og það hefur komið í ljós að þetta eru ferðamenn sem eyða jafnmiklu eða meiru en meðalferðamaðurinn á Íslandi.“

Það er því ljóst að fyrirtæki geta nýtt sér hátíðina sem góða kynningu ef þau spila rétt og eru sniðug, auk þess sem sjaldan er betra tækifæri til að ná til erlendra blaðamanna og fjölmiðlafólks, en mikill fjöldi þeirra kemur ár hvert á hátíðina og nefnir Grímur í því samhengi að hátíðin sé í samstarfi við Rolling Stone, Guardian, New York Times og Mojo auk fjölda annarra blaða og útvarpsstöðva víða um heim. Meðal annars hafi blaðamenn frá Dubai komið á síðustu hátíð og skrifað stóra umfjöllun um Ísland og hátíðina og tímaritið Geo í Þýskalandi lagt þriðjung blaðsins undir Airwaves-heimsóknina.

Hundreds frá Þýskalandi spiluðu á opnunarhófinu í Vesturbæjarlauginni
Hundreds frá Þýskalandi spiluðu á opnunarhófinu í Vesturbæjarlauginni Ernir Eyjólfsson
Frá tónleikum Pascal Pinon á Airwaves
Frá tónleikum Pascal Pinon á Airwaves Kristinn Ingvarsson
Ingi S. Skúlason spilar fyrir gesti Bláa lónsins á Airwaves …
Ingi S. Skúlason spilar fyrir gesti Bláa lónsins á Airwaves hátíðinni Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK