Lítill ábati af evruaðild

Már Guðmundsson seðlabankastjóri
Már Guðmundsson seðlabankastjóri Ómar Óskarsson

„Ísland hefur færst nær því að vera heppilegur aðili að evrópska myntsvæðinu, en Ísland er hins vegar enn í þeim hópi Evrópuríkja sem minnstan ábata hefðu að slíkri aðild“. Þetta sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans á fundi um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum, en hann taldi Bretland, Noreg og þau ríki sem glíma við mestan skuldavanda vera hin ríkin sem lítinn ábata hefðu að aðild.

Sagði Þórarinn að rök væru bæði með og á móti upptöku evru og að ekki væri hægt að meta það á hagfræðilegum forsendum hvor kosturinn væri betri. „Ísland stendur frammi fyrir ákveðinni valþröng. Það er hægt að færa góð rök fyrir því að halda krónunni eða ganga inn í evrópska myntsvæðið ... Það er engin hagfræðileg forskrift til að komast að niðurstöðu um hvor kosturinn er betri.“ Bætti hann við að það færi allt eftir því hvaða áhættuþætti menn myndu meta mikilvæga og hverja ekki. 

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, blés á einhliða upptöku annars gjaldmiðils í ræðu sinni við sama tilefni. „Einhliða upptaka annarrar myntar hefði verulega áhættu í för með sér. Við mælum ekki með því.“ og tók hann sérstaklega fram að þetta ætti við þegar um væri að ræða mynt sem Ísland á hlutfallslega lítil viðskipti við. Átti hann þar væntanlega við umræðuna um upptöku Kanadadollars.  Már rifjaði einnig upp orð Martin Wolf, aðalhagfræðings og leiðarahöfundar Financial Times þegar hann sagði „Allir valkostir í gjaldmiðlamálum eru slæmir, ég held að þessi skýrsla hafi leitt það í ljós.“

Við kynningu á skýrslunni voru jákvæðir og neikvæðir punktar við upptöku evrunnar tilteknir og var þar meðal annars bent á að sveigjanleiki raunlauna á Íslandi væri stór kostur sem hefði minnkað atvinnuleysi eftir efnahagshrunið. Með því að færa sig yfir í evruna væru Íslendingar einnig að missa stjórntæki sem krónan sé og að sá efnahagsvandi sem nú geisar á evrusvæðinu væri stór áhættuþáttur þar sem ekki væri fyrirséð um hvort samstarfið myndi líða undir lok.

Jákvæðu atriðin væru aftur á móti aukin milliríkjaviðskipti, en utanríkisviðskipti Íslands eru í dag frekar lítil sem hlutfall af landsframleiðslu. Kemur fram í skýrslunni að umfang utanríkisviðskipta gæti aukist um 8-23%, en að jafnaði bendi rannsóknir til þess að viðskipti aukist um 10%. Í framhaldi af auknum utanríkisviðskiptum verði varanleg innlend framleiðsla meiri og landsframleiðsla á mann gæti hækki um 1,5 til 11% samkvæmt rannsóknum á ríkjum sem hafi gengið í evrusamstarfið. Að auki verði aðgangur að stærri fjármagnsmarkaði með engri gengisáhættu og lægri vöxtum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK