Staðfesta olíufund við Írland

Borpallurinn Gullfaks C við strönd Noregs. Írar vona nú að …
Borpallurinn Gullfaks C við strönd Noregs. Írar vona nú að þeir fái skerf af olíuhagnaði.

Eftir áratuga þreifingar í olíuleit virðist sem Írland sjái loksins fram á að njóta ávaxta af verkefninu. Fyrirtækið Providence Resources Plc, sem skráð er bæði í Írlandi og Bretlandi, hefur staðfest fund á 280 milljónum tunna af olíu á Barryoe-svæðinu, sem er 30 mílur út af strönd borgarinnar Cork, í suðausturhluta landsins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Gert er ráð fyrir að Írland muni taka um 25% af öllum hagnaði vegna olíuvinnslunnar og jafnvel upp í 40% ef frekara magn olíu finnst. Það gæti þýtt milljarða punda í skattpeninga fyrir landið, sem síðustu árin hefur frekar verið í fréttum vegna fjármálaerfiðleika. Þetta ættu því að vera gleðitíðindi sem gætu komið með fjármagn inn í efnahag landsins.

Providence Resources gerir ráð fyrir að trekkja að alþjóðleg stórfyrirtæki til að rannsaka aðra staði sem það á rétt á á írsku landgrunni. Nú þegar hefur verið samið við Exxon Mobil um sérfræðiaðstoð við leit á Drumquin-svæðinu.

Bent hefur verið á að það hlutfall sem Írland fær fyrir olíuna sé nokkuð lægra en hjá Bretlandi og Noregi, en orkumálaráðherra landsins, Pat Rabbitte, segir að ekki sé hægt að bera þetta saman. Í Írlandi sé um mun minna magn að ræða og að hagnaðarvonin verði að vera nægjanleg til að drífa að fjárfesta og olíufyrirtæki þar sem Írland hafi ekki þekkingu né fjármagn til að fjármagna leitina sjálft.

Efnisorð: olía olíuleit
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK