Um fimm þúsund heimili í vanskilum

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu um 1,3 milljörðum króna í september en þar af var tæpur 1,1 milljarður króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í september 2011 um 1,9 milljörðum króna.

Meðalútlán almennra lána voru um 8,9 milljónir króna. Heildarfjárhæð almennra lána fyrstu 9 mánuði ársins er samtals um 9,4 milljarðar króna en var um 17,7 milljarðar króna á sama tímabili 2011. Alls hefur Íbúðalánasjóður veitt 972 almenn íbúðalán frá áramótum í samanburði við 1.760 lán á sama tímabili í fyrra.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga námu um 7,7 milljörðum króna í september. Uppgreiðslur námu um 1,2 milljörðum króna.

Lánasafn Íbúðalánasjóðs er alls 92.906 veðlán á 51.897 fasteignum í eigu einstaklinga og 8.497 fasteignum í eigu lögaðila. Vanskil hafa sögulega verið lítil í útlánasafni ÍLS en við hrun á fjármálamarkaði haustið 2008 jukust vanskil einstaklinga úr því að ná til um 2% útlána sjóðsins í það að ná til um 15% útlána.

Í lok september 2012 námu vanskil einstaklinga 5,06 milljörðum króna og er undirliggjandi lánavirði 95,4 milljarðar króna eða um 14,2% útlána sjóðsins til einstaklinga. Þetta samsvarar 0,1% aukningu frá fyrri mánuði og er 0,1% undir meðalstöðu vanskila ársins 2012.

Heimili í vanskilum eru 5.051 og þar af er 671 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru því 9,7% þeirra heimila sem hafa lán hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok september 2012. Í lok árs 2011 var sama hlutfall 8,7%, samkvæmt mánaðaskýrslu Íbúðalánasjóðs sem kom út í gær.

Í lok september námu vanskil lána til lögaðila alls 2,38 milljörðum króna og er undirliggjandi lánavirði 31 milljarður króna. Þetta er um 21% útlána sjóðsins til lögaðila, sem samsvarar 0,6% lækkun frá fyrri mánuði og er 1,6% undir meðalstöðu vanskila lögaðila á árinu 2012. Lækkun vanskila lögaðila það sem af er ári skýrist að mestu af því að undirliggjandi veðandlag útláns hafi verið yfirtekið af Íbúðalánasjóði.

Alls nema útlán til lögaðila 18,1% af heildarútlánum Íbúðalánasjóðs. Í lok september náðu vanskil einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu til 2.774 heimila og 2.277 heimila utan höfuðborgarsvæðisins. Sé litið til undirliggjandi lánsfjárhæðar eru 12,6% lána einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu í vanskilum og 17,2% lána einstaklinga utan höfuðborgarsvæðisins í vanskilum.

7,5 milljarðar í vanskilum en eigið fé ÍLS nemur 6,4 milljörðum króna

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag er fjallað um stöðuna hjá ÍLS. Þar kemur fram að samtals hafi vanskil við sjóðinn numið 7,5 milljarði króna í lok september en til samanburðar má nefna að um mitt ár var eigið fé ÍLS 6,4 milljarðar króna.

„Undirliggjandi lánavirði lána í vanskilum var hins vegar 126 ma.kr., eða sem samsvarar ríflega 15% af heildarlánasafni sjóðsins. Ljóst er að eigið fé ÍLS er harla lítið í samanburði við vanskilin.

Þar að auki verður að hafa í huga að sjóðurinn á ríflega 2.000 íbúðir og er innan við helmingur þeirra í útleigu. Enn fremur býr sjóðurinn við of rúma lausafjárstöðu, sem veldur rekstrartapi þegar vextir eru lágir, líkt og bent var á í nýlegu riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika. Staða ÍLS er því afar veik og líklegt að stjórnvöld þurfi annað hvort að leggja sjóðnum til verulegt eigið fé á næstunni eða standa við þá einföldu ríkisábyrgð sem er á skuldabréfum sjóðsins,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK