Hefur ekki umtalsverð áhrif á bankann

mbl.is/Hjörtur

Að mati Landsbankans hefur hinn nýi dómur Hæstaréttar ekki umtalsverð áhrif á fjárhag bankans. Í uppgjöri fyrir árið 2011 var tillit tekið til mögulegra áhrifa dóma varðandi þessi mál. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.

Í gær gekk dómur Hæstaréttar í máli nr. 464/2012: Borgarbyggð gegn Arion banka hf. Dómurinn varðar ágreining um vaxtaviðmið í endurútreikningi gengistryggðs láns í lánssamningi sveitarfélagsins Borgarbyggðar.

 Landsbankinn segir jákvætt að gengið hafi dómur sem varpar frekara ljósi á það hvernig Hæstiréttur telur að standa eigi að endurreikningi gengistryggðra lána. Að mati Landsbankans staðfestir dómurinn fordæmisgildi dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 um gildi fullnaðarkvittana.

 „Í báðum þessum málum var um að ræða langtímalán með gengistryggingu sem greitt hafði verið af með skilvísum hætti og í góðri trú í lengri tíma í samræmi við útsenda greiðsluseðla. Í málunum var talið að uppfyllt væru tiltekin skilyrði fyrir því að víkja frá þeirri meginreglu kröfuréttar að krefja skuldara um viðbótargreiðslur vegna greiddra samningsvaxta aftur í tímann.

 Enn eru þó óútkljáð ákveðin álitamál sem hafa verið send dómstólum eða verða send þeim á næstunni og nauðsynlegt er að fá skorið úr áður en hægt verður að ljúka öllum útreikningum.

Að mati Landsbankans hefur hinn nýi dómur Hæstaréttar ekki umtalsverð áhrif á fjárhag bankans, umfram þau sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Í uppgjöri fyrir árið 2011 var tillit tekið til mögulegra áhrifa dóms Hæstaréttar í máli 600/2011 og þá voru gjaldfærðir 38 milljarðar króna undir liðnum „Tap af gengistryggðum útlánum og kröfum á viðskiptavini“ til samræmis við sviðsmynd sem FME óskaði eftir að fjármálafyrirtæki notuðu sem viðmið við útreikning á áhrifum dómsins. 

Landsbankinn mun nú yfirfara dóm Hæstaréttar með tilliti til fordæmisgildis en rétt er að ítreka það sem áður hefur komið fram, að í þeim tilfellum þar sem niðurstaðan verður sú að lán verði endurreiknað á ný, mun innheimta til framtíðar að sjálfsögðu taka mið af leiðréttum eftirstöðvum. Hugsanlegar ofgreiðslur verða þannig leiðréttar,“ segir í fréttatilkynningu bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK