Mildari tónn hjá Seðlabankanum

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ernir

Tónninn í vaxtaákvörðun seðlabankans var að þessu sinni nokkuð mildari en áður og gerir bankinn ráð fyrir því að núverandi nafnvextir nægi til þess að ná verðbólgumarkmiðinu. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka. Segir þar að tónninn í síðustu málsgrein yfirlýsingarinnar, sem jafnan gefur vísbendingu um hug nefndarinnar til vaxtaþróunar á næstunni, er mildaður töluvert frá síðustu vaxtaákvörðun.

Þar er nú sagt að grunnspá Seðlabankans bendi til þess að núverandi nafnvextir bankans nægi til þess að ná verðbólgumarkmiði hans á spátímanum. Þessi setning er ný af nálinni í yfirlýsingum peningastefnunefndar, og segir greiningardeildin að hún renni frekari stoðum undir þá skoðun að stýrivextir bankans verði óbreyttir eftir næstu vaxtaákvörðun þann 12. desember næstkomandi. 

Í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar sem birt var samhliða ákvörðun um óbreytta vexti á vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar í október var hins vegar sagt að miðað við óbreyttar horfur um verðbólgu og efnahagsbata væri líklegt að nafnvextir þyrftu að hækka frekar á næstunni. Hækkunin nú virðist því hafa dugað að mati nefndarinnar þar sem verðbólgu- og efnahagshorfur eru lítið breyttar. Már Guðmundsson Seðlabankastjóri fylgdi þessum nýja tóni svo eftir með því að segja á kynningarfundi bankans að vaxtahækkunarferlið væri á enda í bili.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK