Kaupir Íslenska erfðagreiningu fyrir 50 milljarða

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Sean Harper, yfirmaður rannsóknar …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Sean Harper, yfirmaður rannsóknar og þróunar hjá Amgen á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Kristinn

Samkomulag hefur tekist um að bandaríska líftækni- og lyfjaframleiðslufyrirtækið Amgen kaupi allt hlutafé móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar fyrir 415 milljónir bandarískra dala eða um 52 milljarða íslenskra króna. Kaupin voru samþykkt einróma í stjórn Amgen og verður kaupverðið greitt að fullu í reiðufé.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

 „Íslensk erfðagreining hefur byggt upp öfluga þekkingu með rannsóknum sínum á arfgengum sjúkdómum og er í leiðandi hlutverki á heimsvísu í mannerfðafræði,“ er haft eftir Robert A. Bradway, forstjóra Amgen, í tilkynningunni. „Þekkingarbrunnur fyrirtækisins mun auka getu okkar til þess að greina sjúkdómsvalda og afmarka þá þætti sem orðið geta til lækninga. Þannig getum við þróað með skjótvirkari hætti en ella betri lyf gegn mismunandi sjúkdómsvöldum og sparað okkur um leið bæði tíma og fjármuni í ómarkvissum verkefnum.”

Safnað upplýsingum um hálfa milljón einstaklinga

 Íslensk erfðagreining var stofnuð árið 1996. Frá þeim tíma hefur fyrirtækið safnað erfða- og læknisfræðilegum upplýsingum frá u.þ.b. hálfri milljón einstaklinga víða um heim og grundvallað á þeim margþættar rannsóknir sem vakið hafa mikla athygli vísindaheimsins á undanförnum árum. Hefur Íslensk erfðagreining uppgötvað arfgenga áhættuþætti sem liggja að baki fjölda sjúkdóma, bæði margra þeirra sjaldgæfu og hinna sem algengastir eru í samfélagi líðandi stundar.

 „Þetta er mikil viðurkenning fyrir starfsemi og starfsfólk fyrirtækisins,“ er haft eftir Kára  Stefánssyni, stofnanda og forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í tilkynningunni.

„Fjárfesting þessa öfluga félags er einnig yfirlýsing um traust á íslensku samfélagi og því opinbera regluverki og eftirliti sem daglegt starf okkar lýtur. Í þeim efnum verða engar breytingar með þessu nýja eignarhaldi. Aðkoma Amgen verður án efa mikil lyftistöng fyrir starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar og gerir okkur kleift að takast á við krefjandi verkefni af auknum þrótti. Við erum sannfærð um að markviss stefna Amgen og hæfileiki til þess að fella erfðafræðirannsóknir okkar inn í lyfjaþróunarstarf fyrirtækisins flýti því ferli að uppgötvanir okkar nýtist í lækningum margskonar sjúkdóma á næstu árum.“

 Kaupin þarfnast ekki samþykkis yfirvalda og gert er ráð fyrir að þau gangi í gegn fyrir árslok 2012.

Frétt mbl.is: Meðal stærstu líftæknifyrirtækja heims

Íslensk erfðagreining.
Íslensk erfðagreining. mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK